„Það er barn í kassa“

Fóstureyðingar eru afar umdeildar á Írlandi en fjöldi írskra kvenna …
Fóstureyðingar eru afar umdeildar á Írlandi en fjöldi írskra kvenna ferðast til Englands á ári hverju til að gangast undir meðgöngurof. AFP

Írskur læknir hefur tjáð sig um það hversu erfitt það var að ferðast heim til Írlands með fóstur í kassa, en hún neyddist til að leita út fyrir landsteinana til að gangast undir fóstureyðingu. Fóstureyðingar, eða meðgöngurof, eru með öllu bannaðar á Írlandi, nema ef lífi móðurinnar er stefnt í hættu

Frétt mbl.is: Mannréttindabrot að banna fóstureyðingar

Lara Kelly er ein fárra úr læknastéttinni sem hafa tjáð sig um þá reynslu að þurfa að yfirgefa heimalandið til að gangast undir fóstureyðingu, eða meðgöngurof, en í mars sl. fengu hún og eiginmaður hennar, Mark, þær upplýsingar að fóstrið sem Kelly gekk með myndi ekki lifa lengi eftir fæðingu.

Heili þess hafði ekki þroskast með hefðbundnum hætti og þá hafði það aðeins hálft hjarta.

Frétt mbl.is: Neitað um að eyða andvana fóstri

Hjónin ferðuðust til Liverpool, þar sem meðganga Kelly var rofin, en þar sem þau vildu brenna líkamsleifar fóstursins og jarðsetja þurftu þau að flytja þær með sér heim. Þau stóðu frammi fyrir því vali að tékka fóstrið inn þegar þau mættu í flug, eða taka það með sér í handfarangri.

Frétt mbl.is: Fórnarlömb harðneskjulegrar löggjafar

„Við stóðum óralengi í röð í öryggiseftirlitinu og líkamlega leið mér ekki vel eftir aðgerð dagsins áður,“ segir Kelly. „Þegar við komumst að sögðum við öryggisverðinum að við þyrftum að gera grein fyrir fósturleifum. Gaurinn sagði: Ha? Hann virtist ekki skilja þannig að við sögðum þetta upphátt aftur. Hann skildi ekki hvað „fósturleifar“ þýddi, svo Mark sagði: Það er barn í kassa. Hálf röðin heyrði það; líklega heyrðu það sumir sem voru á leið í flugið okkar til Dublin.“

Frétt mbl.is: Gætu stöðvað þjóðaratkvæði um fóstureyðingar

Kelly upplifði sterklega hversu ósanngjarnt það væri að hún þyrfti að leita eftir fóstureyðingu út fyrir landsteinana. Fjöldi írskra kvenna stendur frammi fyrir sömu ákvörðun á ári hverju.

Frétt mbl.is: Tísta tíðahringnum undir #repealthe8th

Þegar hún skoðaði vefsíðu miðstöðvarinnar þar sem meðgöngurofið var framkvæmt, komst hún að því að þar var að finna sérstakt svæði með upplýsingum fyrir konur frá Írlandi. Vegna þess að ferðalaginu milli landa fylgir kostnaður, rukkar miðstöðin þær um lægra gjald en konur búsettar á Englandi.

Frétt mbl.is: Gáfu sig fram fyrir að taka fóstureyðingarpillu

Kelly segist mun heldur hafa viljað gangast undir aðgerðina heima.

„Ég hefði getað farið á spítalann minn að morgni, ég hefði getað verið hjá mömmu og pabba að jafna mig nóttina á eftir; í mínu eigin rúmi undir eftirliti míns læknis. Ég var neydd til að fara í flug og ferðast til annars lands af því að mér var ekki heimilt að vera hér,“ segir hún.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert