Færeyingar 50 þúsund á næsta ári

Tinganes í Þórshöfn í Færeyjum.
Tinganes í Þórshöfn í Færeyjum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Útlit er fyrir að íbúafjöldi í Færeyjum fari á næsta ári upp fyrir 50 þúsund. Þetta kom fram í Ólafsvökuræðu Aksels V. Johannesens, lögmanns Færeyja, í dag. Þjóðhátíðardagur landsins er kenndur við Ólaf helga Haraldsson sem var Noregskonungur frá 1015–1028. 

Hátíðin á rætur sínar að rekja til miðalda þegar Færeyjar lutu stjórn Norðmanna.

Aksel gerði að umtalsefni sínu þá brottfluttu Færeyinga sem flytja heim aftur til landsins og þá sérstaklega konur á barneignaaldri.

„Fólksfjöldinn í landinu vex og hin skakka aldurssamsetning er að lagast, en hún hefur lengi verið okkar stærsta vandamál. Lengi hefur þeim fækkað hér sem eru undir fertugu en nú er það að breytast því fleira og fleira ungt fólk er að koma aftur heim. Ekki síst konur á barneignaaldri eru að flytja heim samkvæmt hagtölunum. Ef þetta heldur svona áfram munum við á árinu 2017 ná 50 þúsund íbúum í Færeyjum,“ sagði lögmaðurinn í árlegri ræðu sinni á þjóðhátíðardaginn.

Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja.
Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja. Ljósmynd/EileenSanda

Var þetta fyrsta ræða Aksels sem lögmanns í Færeyjum en hann tók við embættinu í september í fyrra. Hann er formaður Jafnaðarmannaflokksins í Færeyjum. Í ræðu sinni nefndi hann þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa lagst í til þess að halda fólki í Færeyjum. Sagði hann að mikilvægust væru félags- heilbrigðis- og húsnæðismálin. 

„Góða gongdin vekir góðar vónir,“ sagði Aksel í ræðu sinni, sem þýða má með eftirfarandi hætti: „Velgengnin gerir okkur vongóð.“

Mbl.is ræddi í fyrra við Þórð Bjarna Guðjónsson, ræðismann Íslendinga í Færeyjum, og fékk hann til þess að segja frá þeim hefðum og sögum sem fylgja Ólafsvökunni en hátíðin sjálf hefst 25. júlí á hverju ári.

Sjá frétt mbl.is: Dansa „Orminn langa“ fram á nótt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert