Las vestrænum ráðamönnum pistilinn

Erdogan þykir lítið til ráðlegginga annarra ráðamanna koma.
Erdogan þykir lítið til ráðlegginga annarra ráðamanna koma. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, var harðorður í garð leiðtoga Evrópu og Bandaríkjanna í dag og bað þá vinsamlegast um að huga að eigin garði áður en þeir færu að skipta sér af hans.

Stjórnvöld í Evrópu og vestanhafs hafa lýst yfir áhyggjum vegna aðgerða Tyrkja í kjölfar valdaránstilraunarinnar þar í landi 15. júlí sl. Fleiri en 18.000 hafa verið hnepptir í varðhald, þeirra á meðal fræða- og blaðamenn.

„Sumt fólk vill ráðleggja okkur. Þeir segjast hafa áhyggjur. Sinntu bara eigin málum! Horfðu á þínar eigin gjörðir,“ sagði forsetinn í ræðu í forsetahöllinni.

„Ekki einasta manneskja hefur vottað samúð sína, hvorki af hálfu Evrópusambandsins... eða Vestursins. Og svo segja þeir að Erdogan sé orðinn svo reiður!“ þrumaði hann.

„Þessi lönd eða leiðtogar - sem hafa engar áhyggjur af lýðræðinu í Tyrklandi; lífi fólks, framtíð þess, en hafa áhyggjur af örlögum valdaræningjanna - geta ekki kallast vinir okkar.“

Erdogan hét því að leita allra leiða, innan ramma laganna, til að sækja þá til saka sem stóðu fyrir valdaránstilrauninni. Hann tilkynnti hins vegar einnig að hann hygðist rétta fram sáttarhönd og falla frá hundruð kæra gegn einstaklingum sem hefðu móðgað hann.

Forsetinn heimsótti bækistöðvar tyrkneskra sérsveita í dag.
Forsetinn heimsótti bækistöðvar tyrkneskra sérsveita í dag. AFP

Blaðamenn meðal handteknu

Johannes Hahn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, sagðist þurfa að sjá „svartar og hvítar“ upplýsingar um það hvernig farið væri með þá einstaklinga sem verið væri að handtaka.

Að sögn tyrkneskra embættismanna hefur 3.500 þeirra sem hafa verið hnepptir í varðhald verið sleppt.

„Ef minnsti grunur leikur á um að meðferðin sé ósæmileg, þá verða afleiðingarnar óumflýjanlegar,“ sgði Hahn í samtali við Sueddeutsche Zeitung.

Tuttugu blaðamenn, sem stjórnvöld álíta hafa tengsl við klerkinn Fethullah Gulen, sem Erdogan kennir um valdaránstilraunina, voru færðir fyrir dómara í dag. Á miðnætti höfðu sex verið úrskurðaði í varðhald en enn á eftir að ákvarða hvort hinum 14 verður sleppt eða hvort þeir verða einnig fangelsaðir.

Utanríkisráðherrann Mevlut Cavusoglu hefur varið aðgerðirnar gegn blaðamönnunum og sagt nauðsynlegt að greina á milli þeirra sem stóðu að valdaránstilrauninni og „þeirra sem stunda alvöru blaðamennsku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert