Erdogan vill stofna sérstakan herháskóla

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti heilsar lögreglumönnum í heimsókn sinni í …
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti heilsar lögreglumönnum í heimsókn sinni í höfuðstöðvar sérsveitar lögreglunnar. AFP

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti tilkynnti í dag að hann vildi koma á stjórnarskrárbreytingum sem fælu í sér að leyniþjónusta og her landsins heyrðu beint undir forsetaembættið. Þá hyggst forsetinn loka öllum herskólum í landinu og opna þess í stað sérstakan herháskóla.

„Við ætlum að kynna lítillegar stjórnarskrárbreytingar fyrir þinginu sem, ef þær verða samþykktar, fela í sér að leyniþjónustan og embætti herráðsforingja muni eftirleiðis heyra beint undir forsetaembættið,“ sagði Erdogan í viðtali við A-Haber-sjónvarpsstöðina.

Erdogan og stjórn hans hafa staðið fyrir mikilli herferð sl. hálfan mánuð gegn öllum þeim sem stjórnin telur tengjast valdaránstilrauninni sem gerð var 15. júní sl.  

Forsetinn bætti við að í kjölfar valdaránstilraunarinnar yerði öllum herskólum í landinu lokað og sérstakur herháskóli stofnaður í þeirra stað. Er þetta meðal þeirra breytinga sem forsetinn vill láta gera á stjórnskipan tyrkneska hersins.

Hættir við málaferli gagnvart þeim sem hafa móðgað hann

Erdogan tilkynnti enn fremur í dag að hann hygðist hætta við málaferli gagnvart öllum þeim einstaklingum sem hefðu móðgað hann. Kvaðst forsetinn vera innblásinn af þeirri samkennd sem hann hefði fundið fyrir í kjölfar valdaránstilraunarinnar.

Hann gagnrýndi þó einnig ráðamenn þeirra þjóða sem hefðu lýst yfir áhyggjum af herferð tyrkneskra stjórnvalda gegn þeim sem stjórnin teldi tengjast eða styðja meinta landráðamenn. Sagði Erdogan þeim að horfa í eigin rann.

Í gær sakaði Erdogan bandaríska hershöfðingjann Joseph Votel um að vera hliðhollur valdaræningjunum. Votel hafði áður lýst áhyggjum af að fangelsun fjölda tyrkneskra hershöfðingja gæti haft skaðleg áhrif á samskipti Tyrklands og Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert