Samþykkja vopnahlésskilmála SÞ

Jemenskur handverksmaður útbýr hefðbundna jambía kuta i gamla bænum í …
Jemenskur handverksmaður útbýr hefðbundna jambía kuta i gamla bænum í Sanaa. Vopnahlésskilmálar SÞ gera ráð fyrir að uppreisnarmenn yfirgefi Sanaa og aðrar borgir og bæji sem þeir hafa tekið yfir undanfarin misseri. AFP

Stjórnvöld í Jemen tilkynntu í dag að þau samþykktu þá vopnahlésskilmála sem samninganefnd Sameinuðu þjóðanna hefði lagt fyrir deiluaðila í von um að binda mætti enda á borgarastyrjöldina sem geisað hefur í landinu rúmt ár.

Ekkert hefur þó enn heyrst frá uppreisnarmönnum að sögn fréttastofu AFP um það hvort þeir gangist við skilmálunum.

Yfirlýsing um að skilmálarnir hefðu verið  samþykktir var send út eftir fund ríkisstjórnar Abedrabbos Mansours Hadis og háttsettra fulltrúa bandamanna hans í Sádi-Arabíu og víðar, sem haldinn var í Riyad undir forsæti Hadis.

Abdulmalek al-Mikhlafi, utanríkisráðherra Jemens, sem fer fyrir samninganefndinni í Kúveit, er sagður hafa sent Sameinuðu þjóðunum staðfestingu þess efnis að ríkisstjórnin fallist á skilmála Kúveitsamningsins.

Sá fyrirvari er þó gerður að fulltrúar Hútíhreyfingarinnar og vopnaðra sveita sem fylgja Ali Abdullah Saleh, fyrrverandi Jemensforseta, að málum undirriti samkomulagið ekki síðar en 7. ágúst næstkomandi. Uppreisnarmennirnir hafa hins vegar enn ekki tjáð sig um málið.

Talsmaður Hútíhreyfingarinnar, Mohammed Abdulsalam, tilkynnti þó í twitterskilaboðum áður en ákvörðun Jemenstjórnar lá fyrir að uppreisnarmennirnir krefðust alhliðalausnar og þeir höfnuðu öllu því sem þeir segja leysa vandann aðeins að hálfu leyti.

Nýjasta útgáfa vopnahléssamkomulagsins kveður á um að uppreisnarmenn skuli hverfa frá Sanaa og fleiri stórum borgum og bæjum, þar sem þeir hafa verið við völd síðustu misseri, og afhenda öll þungavopn sérstöku herráði sem Hadi Jemensforseti muni skipa sem stjórn. Þá verði sérstakt æðstaráð, sem fulltrúar Hútíhreyfingarinnar og stuðningsmanna Salehs stofnuðu fyrir nokkrum dögum og stjórna á landinu, lagt niður hið snarasta og allar ákvarðanir þess ógiltar.

Friðarviðræðurnar í Kúveitt hafa fram að þessu lítið þokast í samkomulagsátt og telja stjórnmálaskýrendur þetta nýjasta útspil stjórnar Hadis og bandamanna ekki líklegt til að verða samþykkt af uppreisnarmönnum.

Um 6.400 manns hafa týnt lífi í bardögum og loftárásum í Jemen síðan hernaðarbandalag Sádi-Araba og fleiri þjóða lýsti yfir stuðningi við stjórn Hadis og réðst til atlögu gegn uppreisnarmönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert