Skutu flugskeyti á Japanshaf

AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu skutu tilraunaflugskeyti frá strönd landsins sem hafnaði í Japanshafi í dag við litla hrifningu stjórnvalda í Japan. 

Samkvæmt upplýsingum frá Bandaríkjaher var tveimur Rodong-flugskeytum skotið en aðeins annað þeirra virðist hafa tekist á loft en hitt sprungið þegar því var skotið á loft.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu höfðu hótað aðgerðum í kjölfar ákvörðunar Bandaríkjamanna um að koma upp eldflaugavarnakerfi í Suður-Kóreu. Eins eru aðeins nokkrar vikur í að viðamikil heræfing hefjist á þessum slóðum sem bæði Bandaríkjaher og her Suður-Kóreu taka þátt í. 

Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, ræddi við fréttamenn í morgun.
Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, ræddi við fréttamenn í morgun. AFP

Japönsk yfirvöld segja að ein eldflaug hafi hafnað í Japanshafi, í um 250 km fjarlægð frá strönd landsins. Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, segir að um alvarlega ógn við öryggi landsins sé að ræða og slíkt verði ekki liðið. 

Bandarísk yfirvöld hafa fordæmt eldflaugaskotið og segja það brot á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem leggur bann við því að stjórnvöld í Norður-Kóreu skjóti slíkum eldflaugum á loft inn í lofthelgi annarra ríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert