Ætlaði að heilsa upp á drottninguna

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May og Elísabet Bretlandsdrottning.
Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May og Elísabet Bretlandsdrottning. AFP

Rúmlega tvítugur drukkinn maður var handtekinn eftir að hafa klifrað yfir öryggisgirðingar við Buckingham-höll, dvalarstað Elísabetar drottningar í Lundúnum.

Maðurinn var handtekinn áður en hann komst inn í höllina og hann var óvopnaður. Lundúnalögreglan telur að hann tengist ekki hryðjuverkasamtökum á nokkurn hátt.

Enginn úr konungsfjölskyldunni dvelur í höllinni um þessar mundir en drottningin sjálf er í Balmoral í skosku hálöndunum.

Maðurinn, sem er 22 ára og frá Croydon, var handtekinn klukkan 4.15 í nótt og er hann enn í haldi lögreglu. 

Í maí klifraði maður, sem er dæmdur morðingi, yfir varnargirðinguna hjá Buckingham-höll en var handtekinn í hallargarðinum. Maðurinn, Denis Hennessy, hafði verið látinn laus úr fangelsi árið 2002 eftir að hafa afplánað dóm fyrir morð. Hann spurði ítrekað þegar hann var handtekinn hvort frúin væri við. Hann var sendur með hraði í fangelsi á ný og afplánar nú fjögurra mánaða dóm fyrir athæfið.

Buckingham-höll
Buckingham-höll AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert