Flóðin í rénun en tala látinna hækkar

Michael Plaisance, íbúi Sorrento í Louisiana, skoðar skemmdirnar sem flóðið …
Michael Plaisance, íbúi Sorrento í Louisiana, skoðar skemmdirnar sem flóðið hefur valdið á heimili hans. AFP

Tala látinna í flóðunum í Louisiana í Bandaríkjunum er nú komin upp í 13. Vatnsborðið er hins vegar í rénun í flóðunum sem eru þau mestu í ríkinu í manna minnum.

Margir íbúar hafa snúið aftur heim til að skoða skemmdirnar sem flóðin hafa valdið á heimilum sem fóru undir vatn og sjá hverju megi bjarga áður en rakaskemmdir verða of miklar.

Björgunarsveitir fara nú hús úr húsi í leit að fórnarlömbum flóðanna. John Bel Edwards, ríkisstjóri Louisiana, staðfesti í dag að tveir til viðbótar hefðu fundist látnir í leit björgunarsveita og fórnarlömb flóðanna væru þar með orðin 13.

Þótt vatnsborðið sé víða í rénun hefur bandaríska veðurstofan varað við því að flóðaviðvörun verði víða áfram í gildi þar til undir lok dags á morgun.

„Flóðahæðin er enn meiri en hún hefur mælst áður,“ sagði Edwards við fjölmiðla er hann var á ferð um flóðasvæðin. „Ég vil ekki að neinn telji að þetta sé búið.“

Óskað var eftir aðstoð frá alríkisyfirvöldum eftir að tveir þriðju af 64 sýslum ríkisins voru lýstir hamfarasvæði.

Átta hafa látist í flóðunum

30 þúsund manns bjargað í Louisiana

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert