Fjarlægðu 40 hnífa úr maga manns

Maðurinn að loknum uppskurði, með hnífana sem hann gleypti fyrir …
Maðurinn að loknum uppskurði, með hnífana sem hann gleypti fyrir framan sig. Læknar hans segjast aldrei hafa kynnst máli sem þessu.

Læknar á Indlandi fjarlægðu nýlega 40 hnífa úr maga manns sem sagðist undanfarna mánuði hafa fundið hjá sér þörf fyrir að gleypa hnífa.

Maðurinn dvelur nú á sjúkrahúsi í Punjab-fylki á meðan hann jafnar sig eftir uppskurðinn sem var gerður sl. föstudag, en læknarnir fjarlægðu hnífa sem sumir voru með allt að 17 cm langa bera hnífsegg.

Jatinder Malhotra, einn læknanna sem tók þátt í aðgerðinni, segir að maðurinn sem starfaði sem lögregluþjónn þjáist af geðsjúkdómi sem hann fái nú meðferð við.

Hann hefði hins vegar aldrei áður rekist á einstakling sem gleypti hnífa. „Á 20 ára ferli mínum og í öllum þeim læknisfræðigreinum sem við skoðuðum þá er aldrei minnst á tilfelli eins og þetta þar sem einstaklingur gleypir ekki bara einn, heldur 40 hnífa,“ hefur dagblaðið Los Angeles Times eftir Malhotra sem er læknir í borginni Amritsar.

Maðurinn sagði læknunum að hann gæti ekki útskýrt þörf sína fyrir að gleypa hnífa. „Hann sagði okkur að hann gleypti hnífana á meðan hann drykki eitt vatnsglas,“ sagði Malhotra. „Hann gat ekki útskýrt af hverju. Þetta var bara þörf.“

Maðurinn kom á sjúkrahúsið fyrir hálfum mánuði og kvartaði undan slæmum kviðverkjum.
„Við magaspeglun þá sáum við mikið þykkni í maga hans. Við héldum upphaflega að þetta væri æxli, en þetta reyndist svo vera nokkuð sem enginn okkar læknanna hafði séð áður.“

Tveir skurðlæknar, tveir bráðatæknar og svæfingarlæknir tóku þátt í fyrri aðgerðinni á manninum þegar 28 hnífar voru fjarlægðir úr maga hans. Frekari rannsóknir leiddu hins vegar í ljós að 12 hnífar voru enn inni í honum.
Miklar innri blæðingar urðu í maga mannsins þegar hnífarnir, sem allir voru gerðir úr járni, voru fjarlægðir en þeir höfðu gert marga skurði í magavegginn.

Frá því að aðgerðin var gerð hefur maðurinn sagt læknum sínum að hann geti ekki svo mikið sem horft á hnífa. „Hann meira að segja bað konu sína að yfirgefa herbergið þegar hún var að skera niður ávöxt fyrir hann,“ sagði Malhotra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert