Tala látinna hækkar stöðugt

Frá Amatrice.
Frá Amatrice. AFP

Tala látinna hækkar stöðugt á Ítalíu eftir að harður jarðskjálfti reið yfir Mið-Ítalíu í nótt. Vitað er að tíu eru látnir en óttast er að mun fleiri hafi farist í skjálftanum. Helmingur einhverra bæja er horfinn eftir skjálftann.

AFP

Upptök skjálftans, sem mældist 6,2 stig, eru 76 km suðaustur af borginni Perugia á um 10 km dýpi. Jarðskjálftinn reið yfir klukkan 3:36 að staðartíma (1:36 að íslenskum tíma). Fleiri skjálftar fylgdu í kjölfarið, sá harðasti 5,4 stig. Jarðskjálftinn fannst víða, meðal annars skulfu byggingar í Róm, sem er í 150 km fjarlægð frá upptökunum, í 20 sekúndur.

Almannavarnir á Ítalíu segja að ekki sé hægt að gefa upp opinberlega hversu margir hafi fundist látnir þar sem björgunarstarf stendur yfir.

AFP

Fólkið sem lést var í þremur bæjum í fjalllendi Lazio-héraðs og Marche. Bæirnir sem um ræðir heita Amatrice, Accumoli og Arquata del Tronto.

„Ástandið er átakanlegt. Það eru margir dánir. Ég get ekki gefið upp hversu margir þeir eru þar sem björgunarstarf stendur enn yfir og það er mjög, mjög erfitt, segir bæjarstjórinn í Amatrice, Sergio Pirozzi.

Kort af upptökum skjálftans í nótt.
Kort af upptökum skjálftans í nótt. AFP

Staðfest hefur verið að tveir eru látnir í Arquata, fimm í Amatrice og tveir í Accumoli. Enn er fjölda fólks saknað í bæjunum þremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert