Nauðgunarmálið sem ekki hverfur

Nate Parker bæði leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í kvikmyndinni The …
Nate Parker bæði leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í kvikmyndinni The Birth of a Nation. Stilla úr Birth of a Nation

Fyrir tveimur vikum benti allt til þess að kvikmyndagerðarmaðurinn Nate Parker væri að leggja heiminn að fótum sér með kvikmynd sinni Birth of a Nation en frétt Variety-tímaritsins um afdrif ungrar konu sem kærði hann fyrir nauðgun getur breytt því. Parker var sýknaður af ákæru fyrir 15 árum.

Kvikmyndin The Birth of a Nation hreppti aðalverðlaunin á Sundance-kvikmyndahátíðinni í febrúar en Parker bæði leikstýrir henni og fer með aðalhlutverkið. Myndin fjallar um þrælauppreisn og var valin besta leikna myndin og hreppti einnig áhorfendaverðlaunin á Sundance.

Dreifingarfyrirtækið Fox Searchlight greiddi 17,5 milljónir dala fyrir réttinn til að dreifa The Birth of a Nation og er það hæsta upphæð sem samið hefur verið um fyrir dreifingu á Sundance-hátíðinni. Stefnt var að því að myndin færi í almenna dreifingu í október og fastlega gert ráð fyrir því að hún yrði tilnefnd til Óskarsverðlauna á næsta ári. En skjótt skipast veður í lofti og eru nú efasemdir um hvort myndin, sem Parker var sjö ár að gera, fari í dreifingu í ár.

Nate Parker.
Nate Parker. AFP

Sakaðir um að hafa nauðgað rænulausri stúlku

Parker, sem er 36 ára í dag, og herbergisfélagi hans í háskóla, Jean Celestin, sem skrifaði handrit Birth of a Nation með Parker, voru sakaðir um að hafa nauðgað átján ára gamalli stúlku við Penn State-háskólann árið 1999 þegar hún var rænulaus af áfengisneyslu. Parker var sýknaður árið 2001 en Celestin var dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart stúlkunni. Dómnum var hins vegar snúið við hjá áfrýjunardómstólnum og Celestin sýknaður þar sem fórnarlambið neitaði að bera vitni á nýjan leik.

Ekkert hefur verið fjallað um málið árum saman en í síðustu viku rataði það á forsíðu fjölmargra fjölmiðla eftir að Variety greindi frá því að konan hefði framið sjálfsvíg á meðferðarstofnun fyrir fíkla árið 2012.

Þrátt fyrir að það sé ekkert sem tengi sjálfsvíg hennar þegar hún var þrítug að aldri við réttarhöldin fyrir meira en áratug hafa kviknað spurningar um hegðun Parkers eftir að konan sakaði hann og félaga hans um nauðgun. Hún hélt því fram að Parker og Celestin hafi áreitt hana og hrellt og opinberlega greint frá nafni hennar eftir að hún fór til lögreglunnar og lagði fram kæru á hendur þeim. Hún höfðaði skaðabótamál gegn háskólanum fyrir að hafa brugðist henni og fékk greidda 17.500 Bandaríkjadali í miskabætur eftir að sátt var gerð í málinu á sínum tíma.

The Birth of a Nation.
The Birth of a Nation.

Hefði átt að sýna meiri hluttekningu

Parker sagði á Facebook í síðustu viku að hann hafi fyllst sorg við að frétta af sjálfsvígi konunnar en ítrekaði um leið í færslunni að hann væri saklaus. „Ég sé það núna að ég hefði átt að sýna meiri hluttekningu á sínum tíma þegar ég barðist við að hreinsa nafn mitt,“ skrifaði Parker.

Myndin verður sýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto í næsta mánuði en stefnt er að frumsýningu í bandarískum kvikmyndahúsum 7. október.

Fylgjast grannt með fjölmiðlaumfjöllun

Heimildir herma hins vegar að Fox fylgist grannt með fjölmiðlaumfjöllun þessa dagana með það fyrir augum að fresta almennum sýningum ef umræðan um nauðgunarmálið verður Parker fjötur um fót þegar kynningarherferðin fer af stað.

Eitt af því sem bendir til þess að ekki séu miklar líkur á að myndin verði sýnd fljótlega í kvikmyndahúsum er að bandaríska kvikmyndastofnunin (American Film Institute) frestaði í gær sýningu á myndinni í Los Angeles á föstudag þar sem til stóð að Parker sæti fyrir svörum. Ástæðan er sögð þau tilfinningaþrungnu viðbrögð sem stofnunin hafi fengið varðandi myndina.

Kvikmyndagagnrýnendur telja að afdrif myndarinnar séu í höndum almannatengla Fox, hvernig þeim tekst að matreiða hana fyrir markaðinn. Engin spurning sé um gæði myndarinnar. Miklu frekar spurning um hvort fólk vilji sjá mynd sem gerð er af manni sem sakaður var um nauðgun fyrir sautján árum.

Hvers vegna fréttnæmt núna?

Margir standa með Parker og ekki síst félagar hans úr samtökum svartra bandarískra kvikmyndagerðarmanna (African American Filmmakers).

Variety hefur eftir tveimur þeirra að það veki upp spurningar hvers vegna málið hafi ratað í fréttir núna, fjórum árum eftir lát konunnar, og hvort það sé verið að tryggja að svartur maður hljóti ekki náð fyrir óskarsverðlaunavalnefndinni.

Mannréttindafrömuðurinn Al Sharpton segir í samtali við fréttavefinn The Root að Parker eigi að fá að halda áfram með líf sitt eftir að hafa verið sýknaður. En í huga annarra veitir það ekki Parker syndaaflausn að hafa verið sýknaður af nauðgun því málið snúist um svo miklu meira en árásina sjálfa.

„Eins og staðan er núna, byggt á því sem ég hef lesið, þá myndi ég ekki vilja sjá myndina,“ segir Marcia Nasaitir, aðili í kvikmyndaakademíunni og ein þeirra sem hefur atkvæðisrétt varðandi tilnefningar til Óskarsverðlauna, í viðtali við Hollywood Reporter.

Réttindasamtök kvenna, Women's Law Project, sem önnuðust vörn konunnar á sínum tíma í skaðabótamáli hennar gegn háskólanum, gáfu út yfirlýsingu í vikunni þar sem þau bentu á þá almennu tilhneigingu að kenna fórnarlambinu um í réttarkerfinu þegar kemur að kynferðisbrotum.

Talskona WLP segir í samtali við AFP-fréttastofuna að afstaða þeirra varðandi Birth of a Nation væri margslungin en þau styddu ekki sniðgöngu myndarinnar og bendir á ummæli framkvæmdastjóra WLP, Carol Tracy, í síðustu viku um nauðsyn málfrelsis. Tracy segir að á sama tíma og það sé mikilvægt að Parker fái að heimsækja háskóla og stúdentagarða og ræða um myndina ætti hann að vera undir það búinn að þurfa að svara spurningum um árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert