„Við höfum misst allt, jafnvel óttann“

Sífellt fjölgar í hópi látinna eftir jarðskjálfta á Ítalíu en alls hafa 247 fundist látnir. Óttast er að margir til viðbótar séu grafnir undir rústum í fjallabæjunum sem urðu verst úti í jarðskjálftanum í fyrrinótt.

Á sama tíma og björgunarfólk leitar í örvæntingu eftir fólki á lífi í rústunum hafa kviknað spurningar um hvernig geti staðið á því að svo margir fórust í skjálftanum nú þar sem aðeins eru nokkur ár frá því að um 300 manns létust í skjálfta sem sýndi og sannaði hversu illa Ítalía er búin undir skjálfta af þessari stærð.

Bæjarstjórinn í Amatrice, Sergio Pirozzi, segir að þegar sé vitað að yfir 200 manns hafi farist í bænum og óttast hann að tala látinna eigi eftir að hækka mikið. Amatrice er einn þeirra bæja sem fóru verst út úr jarðskjálftanum. Yfirleitt eru bæjarbúar um 2.500 talsins en mun fleiri voru þar í fyrrinótt enda gestkvæmt þar yfir sumartímann og flestir í fastasvefni þegar skjálftinn reið yfir. 

Af 32 gestum á Hotel Roma er ekkert vitað um afdrif 28 þeirra. Svipaða sögu er að segja af fleiri gististöðum á þessum slóðum. Rauði krossinn er að koma vistum til bæjarbúa sem standa uppi slippir og snauðir því stór hluti bæjarins eru rústir einar.  

Meðal þeirra sem komu að sækja vistir hjá Rauða krossinum er Maria Atrimala, 48 ára, og 15 ára gömul dóttir hennar. „Það er aðeins heppni að þakka að við sluppum lifandi en stigar hússins héldu og við hlupum blinduð í myrkrinu og rykinu,“ segir Atriamala við fréttamann AFP og tárin streyma niður kinnar hennar.

Amatrice.
Amatrice. AFP

„Þegar við komum út heyrðum við óp fólks sem var enn fast í rústunum og við reyndum að hjálpa þeim sem við gátum. Við vorum í L'Aquila (2009) þegar skjálftinn reið yfir þar og nú þetta. Við eigum vini og ættingja sem ekki komust lífs af. Hvað bíður okkar í framtíðinni veit ég ekki,“ bætir hún við.

Hvað bíður okkar?

Hundruð eyddu nóttinni í bifreiðum sínum, í tjöldum eða hjá ættingjum og vinum í nágrenninu sem sluppu betur. Ein þeirra, Monica, missti heimili sitt, marga vini og ættingja. „Við höfum misst allt, jafnvel óttann,“ segir Monica. 

Mario, sem á tvo litla drengi, segist enn vera í áfalli. „Við sváfum í bílnum í nótt en vegna allra eftirskjálftanna er erfitt að festa svefn. Við erum búin að bóka tjaldgistingu í nótt en hvað bíður okkar á morgun eða daginn eftir?“

„Ef við fáum ekki aðstoð þá er öllu lokið fyrir l'Arquata,“ segir Aleandro Petrucci, bæjarstjóri í Arquata del Tronto, en staðfest hefur verið að 57 létust í bænum. Petrucci segir ómögulegt að segja til um það á þessari stundu hversu margir voru í smáþorpunum 13 sem mynda bæinn l'Arquata. 

Í þorpinu Pescara del Tronto, sem bókstaflega þurrkaðist út í jarðskjálftanum, búa að staðaldri aðeins fjórar fjölskyldur en talið er að um 300 manns hafi verið þar skjálftanóttina.

Jarðskjálftar eru algengir á Ítalíu vegna flekahreyfinga Afríkuflekans í suðri og Evrasíuflekans í norðri. Flókin flekamót liggja eftir Ítalíuskaganum endilöngum og mynda Appenínafjöll, að því er fram kemur í bloggi Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings á blog.is. Haraldur líkir jarðskorpu Ítalíu við „krumpað dagblað sem er illa troðið inn um póstlúguna heima hjá þér“. „Nú mjakast Afríkuflekinn stöðugt norður um 4 til 5 mm á ári og heldur áfram að þrengja að og loka Miðjarðarhafinu. Ein afleiðing þessara skorpuhreyfinga eru jarðskjálftar,“ segir hann.

Alpafjöllin eru ein af afleiðingum árekstrar Afríkuflekans og Evrasíuflekans, auk þeirrar fellingar í jarðskorpunni sem myndar Ítalíuskagann.

Jarðskjálftinn mældist 6,2 stig og varð á 10 km dýpi, að sögn bandarísku jarðfræðistofnunarinnar USGS. Jarðvísindastofnun Ítalíu sagði hins vegar að skjálftinn hefði verið 6,0 stig og orðið á um fjögurra kílómetra dýpi.

Frá Pescara del Tronto.
Frá Pescara del Tronto. AFP

Skjálftinn í fyrrinótt var sá öflugasti á Ítalíu frá árinu 2009 þegar 309 manns létu lífið í borginni L'Aquila og nágrenni. Um 60.000 manns misstu heimili sitt í skjálftanum sem mældist 6,3 stig.

Um 95.000 manns fórust í mannskæðasta jarðskjálftanum í sögu Ítalíu 28. desember 1908 í Reggio di Calabria og á Sikiley. Næstmannskæðasti skjálftinn varð í bænum Avezzano í Abruzzo-héraði 13. janúar 1915 þegar 32.000 manns létu lífið.

Skjálftinn nú varð án nokkurs fyrirvara og slösuðust 264 það mikið að þeir þurftu að leggjast inn á sjúkrahús og eru einhverjir þeirra í lífshættu.

Einn milljarður evra í sjóð en lítið um efndir

Með hverjum klukkutímanum sem líður minnka líkur á að finna fólk á lífi í rústunum en björgunarmenn stappa í sig stálinu með minningu um að í L'Aquila var þeim síðustu bjargað á lífi 72 klukkustundum eftir að skjálftinn reið yfir.

Pescara del Tronto.
Pescara del Tronto. AFP

Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, segir að viðfangsefnið sé að byggja upp að nýju og að læra verði af L'Aquila, en þar hefur ekki tekist að byggja upp að nýju nema að hluta til enda djúp ör á sál margra sem misstu allt sitt. Eftir skjálftann þar var einn milljarður evra lagður í viðlagasjóð sem nota átti til þess að bæta húsakost á skjálftasvæðum svo minni hætta yrði á slíkum hamförum og þá urðu. En uppbyggingu hefur miðað hægt. „Hér á miðju jarðskjálftasvæðinu hefur ekkert verið gert,“ segir Dario Nanni frá arkitektaráði Ítalíu. „Það kostar ekki það mikið að gera upp byggingar þannig að þær standist jarðskjálftareglugerðir. En innan við 20% húsa uppfylla þau skilyrði,“ segir hann.

Pescara del Tronto.
Pescara del Tronto. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert