Fannst látin eftir að sjúklingur kvartaði

mbl.is/Styrmir Kári

Breskur læknir, sem var leystur frá störfum eftir að sjúklingur kvartaði yfir því að hún héldi úti bloggi um baráttu sína við geðhvarfasýki, fannst látinn á heimili sínu í nóvember sl. Sjúkdómur Wendy Potts, sem var tveggja barna móðir, er sagður hafa versnað eftir að henni var sagt upp.

Andlát Potts og aðdragandi þess er nú til rannsóknar en hún hélt úti bloggi þar sem hún fjallaði um geðhvarfasýkina og áhrif hennar á líf sitt. Sjúklingur við læknastofuna þar sem Potts starfaði las bloggið og kvartaði, og dró m.a. í efa hvort Potts væri fær um að starfa sem læknir.

Potts var vikið úr starfi í október. Þegar hún lést hafði sú ákvörðun verið afturkölluð en henni hafði engu að síður ekki verið heimilað að snúa aftur til vinnu. Maki hennar, Mark St. John Jones, kom að henni látinni á heimili fjölskyldunnar í Chapel-en-le-Frith í Derbyshire 24. nóvember sl.

Að sögn Jones var Potts undir lækniseftirliti og lyfjaskammtur hennar aukinn í kjölfar atvinnumissisins. Jones sagði að Potts hefði verið undir öðru álagi, m.a. hefði dauði sjúklings haft áhrif á hana og þá hefði hún áður reynt að svipta sig lífi.

Kallað hefur verið eftir gögnum um brottvikningu Potts.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert