Hjálpsamur Norðmaður í djúpum skít

Fastur í skítnum og tókst ekki að finna símann. Nei, …
Fastur í skítnum og tókst ekki að finna símann. Nei, Larsen hefur eflaust átt betri daga. Ljósmynd/Slökkviliðið í Drammen (DRBV)

Það kom í hlut norskra slökkviliðsmanna að draga mann upp úr almenningssalerni eftir að hann klifraði ofan í til að ná í síma sem vinur hans hafði misst í klósettið. Vinurinn var að skvetta úr skinnsokknum þegar hann missti símtækið en hinn hjálpsami vinur, Cato Berntsen Larsen, lét ekki á sér standa og skellti sér ofan í salernisskálina, sem er ekki tengd lögnum og aðeins tæmd endrum og eins.

Það fór ekki betur en svo að hinn 20 ára Larsen fann til veikinda er hann stóð lærdjúpt í innihaldi salernisins og neyddist til að verja klukkustund í hinu þrönga rými. „Ég panikkaði af því að ég hata lokuð rými,“ sagði hann í samtali við hið norska VG.

„Þetta var helvíti ógeðslegt, það versta sem ég hef upplifað. Það voru líka dýr þarna niðri,“ sagði Larsen. Til að gera málið verra, kastaði hann fljótlega upp.

Larsen segist ekki hafa hugsað sig tvisvar um eftir að vinur hans biðlaði til hans um hjálp við að ná í símann. En hann komst fljótlega að því að hann stóð fastur. Í djúpum skít, ef svo má að orði komast. Sjálfur sagðist hann hafa verið „nógu grannvaxinn til að komast ofan í en ekki til að komast upp úr aftur.“

Slökkviliðsmennirnir neyddust til að eyðileggja salernið til að frelsa Larsen úr ógeðfelldri prísundinni. Hann hlaut meiðsl á handleggjum og sagðist halda að hann hefði verið bitinn. Hann fékk aðhlynningu á sjúkrahúsi og var gefið sýklalyf.

Það fylgir sögunni að honum tókst ekki að endurheimta síma vinarins.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert