Neyðarástandi lýst yfir

AFP

Ítölsk yfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi í þeim héruðum sem verst urðu úti í jarðskjálftanum sem reið yfir aðfaranótt miðvikudags. Litlar líkur eru taldar á að fólk finnist á lífi í rústunum en yfir 250 fórust og 365 slösuðust.

Pescara del Tronto.
Pescara del Tronto. AFP

Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, hefur heitið því að 50 milljónum evra verði varið í uppbyggingarstarfið á skjálftasvæðunum. Björgunarfólk hefur í unnið í alla nótt við að leita í rústunum en um fimm þúsund taka þátt. Eftirskjálftar, hundruð talsins, hafa hins vegar tafið hjálparstarfið og allar aðstæður eru skelfilegar.

Tjaldbúðir við Arquata del Tronto.
Tjaldbúðir við Arquata del Tronto. AFP

Fjölmiðlar á Ítalíu segja að vaknað hafi spurningar um hvort yfirvöld hafi gert nóg til að fyrirbyggja mikið manntjón í jarðskjálftum sem eru algengir á þessum slóðum. Ítalskur saksóknari sagði í gær að hafin yrði rannsókn á því hvort einhver bæri ábyrgð á manntjóninu.

Eftir skjálftann í L'Aquila fyrir sex árum var ákveðið að almannavarnayfirvöld á Ítalíu veittu styrki að andvirði milljarðs evra, jafnvirði rúmra 130 milljarða króna, til að endurbæta húsnæði á svæðum þar sem jarðskjálftar eru algengir með það fyrir augum að minnka hættuna á miklu manntjóni. Mikil skriffinnska hefur hins vegar orðið til þess að tiltölulega fáir hafa sótt um þessa styrki, að sögn þeirra sem gagnrýna stjórnvöld fyrir að hafa ekki gert nóg til að fyrirbyggja manntjón af völdum náttúruhamfara.

Amatrice.
Amatrice. AFP

Fréttaritari BBC á hamfarasvæðinu segir að ólíklegt sé að hægt verði að endurreisa þorpið Pescara del Pronto sem jafnaðist við jörðu í skjálftanum eftir að hafa staðið í hundruð ára. „Margra alda sögu lauk á augabragði.“

Frá Pescara del Tronto.
Frá Pescara del Tronto. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert