Brexit án aðkomu þingsins

Theresa May er sögð ætla að setja af stað útgöngu …
Theresa May er sögð ætla að setja af stað útgöngu Breta úr ESB án aðkomu breska þingsins. AFP

Fullyrt er í breska blaðinu Daily Telegraph að Theresa May forsætisráðherra ætli að hefja útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án þess að leggja það fyrir atkvæðagreiðslu í þinginu áður. Meirihluti þingmanna í neðri deild þingsins barðist fyrir því að Bretar yrðu um kyrrt í ESB í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í júní, þar á meðal May sjálf.

Heimildarmaður AFP-fréttastofunnar í Downing-stræti segir að frétt blaðsins sé aðeins vangaveltur. May sé hins vegar staðráðin í að fylgja eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar þar sem 52% Breta kusu með því að yfirgefa ESB.

Lögmenn lögmannsstofunnar Mishcon de Reya hafa boðað dómsmál gegn ríkisstjórninni til að koma í veg fyrir að May virki 50. grein Lissabonsáttmálans sem myndi hefja útgönguferlið án þess að fá til þess samþykki breska þingsins.

May hefur áður sagt að greinin verði ekki virkjuð á þessu ári. Fyrst ætli bresk stjórnvöld sér að móta samningsmarkmið sín gagnvart Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert