Brosti þegar að honum var komið

Brock Turner skömmu eftir að hann var handtekinn í fyrra.
Brock Turner skömmu eftir að hann var handtekinn í fyrra.

Ný gögn í málinu gegn Brock Turner, sem var sakfelldur fyrir kynferðisárás á dögunum, sýna tilraunir lögmanna hans til að draga úr trúverðugleika fórnarlambsins og færa rök fyrir því að árásin á meðvitundarlausa konuna hefði í raun verið með samþykki hennar.

Málið vakti gríðarlega athygli í Bandaríkjunum og víðar en glæpurinn átti sér stað fyrir utan bræðralagshús við Stanford-háskóla 18. janúar 2015.

Guardian hefur undir höndum meira en þúsund skjöl frá réttarhöldunum yfir Turner, en þar kemur m.a. fram hvernig hann hló að tveimur mönnum sem komu að honum þar sem hann var að brjóta gegn konunni.

Turner breytti vitnisburði sínum margsinnis meðan á rannsókn og réttarhöldum stóð og sagan sem hann sagði fyrir dómi var ólík þeirri sem hann hafði sagt lögreglu. Þá rímaði hún ekki við frásögn vitna.

Það vakti gríðarlega reiði og hneykslan þegar dómarinn í málinu dæmdi Turner í sex mánaða fangelsi, en lágmarksrefsing fyrir glæp af þessu tagi er tvö ár. Dómarinn, Aaron Pesky, hefur í kjölfarið sagt sig frá áþekkum málum en kallað hefur verið eftir því að hann verði leystur frá störfum.

Í skjölunum sem Guardian hefur undir höndum er m.a. að finna vitnisburð lögreglumanns sem kom á vettvang. Hann reyndi að ná til konunnar en hún vaknaði til meðvitundar klukkustundum síðar og mundi ekki neitt.

Peter Jonsson, annar mannanna sem komu að Turner brjóta gegn konunni, segir að hún hafi virst sofandi. Turner flúði þegar hann sá mennina nálgast.

„Ég tók eftir því að hann brosti. Svo ég spurði: Af hverju ertu að brosa? Hættu að brosa? [...] Ég sagði, aftur: Hvað ertu að gera? Hún er meðvitundarlaus,“ sagði Jonsson í vitnisburði sínum.

Þegar Turner var spurður að því af saksóknara hvers vegna hann hefði brosað svaraði hann: „Ég var að hlæja að því hversu fáránlegt þetta var.“ Þá viðurkenndi hann að hafa logið að lögreglumönnum þegar hann neitaði því að hafa flúið af vettvangi.

Turner sagði síðar að hann hefði fengið leyfi hjá konunni til að stunda ákveðnar kynlífsathafnir með henni og að hún hefði svarað játandi þegar hann spurði hvort henni fyndist það sem hann var að gera gott.

Spurður að því af hverju hann hefði ekki sagt lögreglu þetta á sínum tíma sagðist Turner hafa „fríkað út“. „Hún virtist ekki drukknari en aðrar sem ég hef verið með,“ sagði hann um ástand fórnarlambsins.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

Þessi mynd er meira til samræmis við þá sem lögmenn …
Þessi mynd er meira til samræmis við þá sem lögmenn Turner reyndu að draga upp og dómarinn virðist hafa verið ginkeyptur fyrir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert