Morð á nunnum vekja óhug

Nunnurnar Paula Merrill og Margaret Held voru myrtar á heimili …
Nunnurnar Paula Merrill og Margaret Held voru myrtar á heimili sínu. Skjáskot

Mikil sorg hefur ríkt í bænum Lexington í Mississippi í Bandaríkjunum síðustu daga eftir að tvær nunnur voru myrtar á hrottalegan hátt á heimili sínu. Einn maður hefur nú verið handtekinn vegna málsins. 

Konurnar hétu Margaret Held og Paula Merrill og voru báðar 68 ára gamlar. Þær bjuggu saman í Lexington og störfuðu á heilsugæslustöð skammt frá heimili sínu. Þegar þær mættu ekki til vinnu á fimmtudag var farið að leita að þeim og þær fundust síðar látnar á heimili sínu. 

Maðurinn sem hefur verið handtekinn heitir Rodney Earl Sanders og er 46 ára gamall. Hann hefur verið ákærður fyrir morðin á konunum. Ekki er ljóst hvort hann hafi einhver tengsl við konurnar. 

Konurnar tvær, sem voru eins og áður sagði nunnur, voru þekktar í bænum fyrir hjálpsemi sína og örlæti. Þær höfðu það að markmiði að bæta heilbrigðisþjónustu fyrir fátæka, en bærinn er sá fátækasti í ríkinu. 

Morðin hafa vakið upp mikinn óhug og fáir geta ímyndað sér hvers vegna einhver myndi vilja myrða konurnar. „Þær gerðu allt fyrir alla,“ sagði Sam Sample, leiðtogi í St. Thomas Catholic Church kirkjunni í Lexington, þar sem konurnar voru sóknarbörn. 

Myndbandið hér fyrir neðan birti góðgerðarstofnunin Sisters of Charity of Nazareth fyrir tíu mánuðum og er þar meðal annars fjallað um Held og Merrill og örlæti þeirra í starfi sínu.

Paula Merrill, SCN from Sisters of Charity of Nazareth on Vimeo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert