„Tákn vonar og sigurs“

Hringurinn sem er sagður hafa verið í eigu Jóhönnu af …
Hringurinn sem er sagður hafa verið í eigu Jóhönnu af Örk. Ljósmynd/timelineauctions.com

Hringur sem er talinn hafa verið í eigu Jóhönnu af Örk er nú til sýnis í Frakklandi eftir að nýir eigendur hans biðluðu til bresku krúnunnar um að fá að halda honum.

Le Puy du Fou, sagnfræðilegur skemmtigarður, keypti hringinn á uppboði í Lundúnum í febrúar síðastliðnum og greiddi 300.000 pund. Eftir að hringurinn hafði verið fluttur til Frakklands voru eigendur garðsins hins vegar upplýstir um að þeir hefðu ekki aflað nauðsynlegra leyfa til að flytja muninn úr landi.

Arts Council England, sem hefur yfirumsjón með framkvæmd útflutningsreglnanna, sagði að flytja þyrfti hringinn aftur til Englands.

Forseti Puy du Fou, Nicolas de Villiers, segir að það hafi aldrei komið til greina að skila honum.

„Við hlógum að beiðninni,“ sagði hann í samtali við Guardian. „Við skrifuðum til drottningarinnar og spurðum hana hvort hún gæti aðstoðað okkur við að greiða úr þessu með skjótum hætti. Augljóslega náði Buckingham-höll eyrum réttrar manneskju því við heyrðum í kjölfarið að við mættum halda hringnum.“

De Villiers segir hringinn, sem hafi verið haldið „föngnum“ á Englandi í 600 ár, hafa gríðarmikið táknrænt gildi.

„Hann er áhrifamikið tákn um ótrúlegt tímabil í sögu okkar og minnir okkur á þessa miklu konu sem sigraðist á miklum þrautum til að fá fólk til að hlusta á sig og leiða land okkar til sigurs.“

„Við vonum að þetta tákn vonar og sigurs muni hjálpa Frökkum við að enduruppgötva það stolt og sjálfsöryggi sem þeir hafa tapað í dag.“

Hringurinn er skreyttur þremur krossum og bókstöfunum IHS og MAR, sem standa fyrir Jesús og Maríu. Hann ku hafa verið tekinn af Jóhönnu áður en hún var brennd fyrir villutrú í Rouen í norðurhluta Frakklands árið 1431. Hún var þá 19 ára gömul.

Þegar hún var yfirheyrð sagði Jóhanna um hringinn að hann væri gjöf frá foreldrum sínum og að hún virti hann fyrir sér áður en hún riði til orrustu við enska innrásarhermenn í virðingarskyni við þau.

Samkvæmt uppboðsgögnum eignaðist kardinálinn Henry Beaufort hringinn eftir dauða Jóhönnu en hann var viðstaddur aftöku hennar. Frá Beaufort gekk hann til fjölskyldu hertogans af Portland en hringurinn var seldur á uppboði hjá Sotheby's 1947 og komst þá í eigu „herramanns frá Essex.“

Eigendur Puy du Fou hyggjast byggja kapellu til að hýsa hringinn.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert