Þingmönnum vísað frá Venesúela

Niculas Maduro, forseti Venesúela, stendur í ströngu þessa dagana.
Niculas Maduro, forseti Venesúela, stendur í ströngu þessa dagana. AFP

Sendinefnd þingmanna frá Ekvador var vísað úr landi í Venesúela vegna þess að þingmennirnir hittu fulltrúa stjórnarandstöðunnar í landinu. Utanríkisráðuneyti Venesúela segir þingmennina hafa tekið þátt í athöfnum sem eru til þess fallnar að skapa „óstöðugleika“.

Ófremdarástand hefur ríkt í Venesúela undanfarin misseri með matvælaskorti, óðaverðbólgu, djúpri kreppu og glæpaöldu. Nicolas Maduro, arftaki vinstrisinnans Hugo Chávez, berst nú fyrir pólitísku lífi sínu en þrýstingur er á hann að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hann eigi að vera áfram við völd eða ekki.

Ekvadorska sendinefndin hitti þingmenn stjórnarandstöðunnar á fimmtudag en þingkonan Cynthia Viteri segir að þegar hún og félagar hennar voru á leið í herfangelsið þar sem Leopoldo López, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, er haldið, hafi leyniþjónustumenn venesúelsku ríkisstjórnarinnar stöðvað för þeirra.

Leyniþjónustumennirnir lögðu hald á vegabréf þingmannanna og upplýstu þá um að vísa ætti þeim úr landi.

„Það sem við upplifðum í Venesúela var ógnvekjandi. Við erum núna í Ekvador,“ skrifaði þingkonan á Twitter í dag.

Utanríkisráðuneyti Ekvador segist hafa áhyggjur af atburðunum í Venesúela og hafi óskað skýringa á þeim frá stjórnvöldum í Venesúela. Þaðan bárust þær skýringar að sendinefndin hafi skipt sér af innanríkismálum annars ríkis með óskammfeilnum hætti. Slíkt sé algerlega bannað samkvæmt útlendingalögum í Venesúela.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert