Tveir þriðju týndu lífi í Amatrice

Forsetinn Sergio Mattarella heimsótti Amatrice í dag. Þar grófust tveir …
Forsetinn Sergio Mattarella heimsótti Amatrice í dag. Þar grófust tveir þriðju hinna látnu undir húsarústum. AFP

Ítalir flagga í hálfa stöng í dag í virðingarskyni við þá sem létust í jarðskjálftanum sem gekk yfir landið aðfaranótt miðvikudags. Forsetinn Sergio Mattarella, sem hóf daginn með heimsókn til Amatrice, lofaði framgöngu hinna 4.000 björgunarmanna og sjálfboðaliða sem hafa unnið við leit og björgun síðustu daga.

Að minnsta kosti 284 létust þegar skjálftinn reið yfir en tveir þriðju þeirra grófust undir húsarústum í Amatrice, litlum fjallabæ sem varð einna verst úti í hamförunum.

Mattarella komst við þegar hann virti fyrir sér eyðilegginguna í bænum en rústirnar hafa verið innsiglaðar til að koma í veg fyrir slys þar sem þær gætu hrunið enn frekar.

Búið er að girða rústirnar af en menn óttast að …
Búið er að girða rústirnar af en menn óttast að byggingar gætu enn hrunið. AFP

Björgunarmenn óttast að enn eigi eftir að finnast líkamsleifar í rústunum í Amatrice, en bærinn er vinsæll ferðamannastaður. Af þeim 400 sem slösuðust í skjálftanum eru margir sagðir í lífshættu.

Menn telja hins vegar nokkuð víst að búið sé að finna alla í smærri byggðum norður af Amatrice, sem sumar þeirra urðu svo illa úti að óvíst er að þær verði endurreistar. Í þorpinu Saletta bjuggu til að mynda 20 manns allan ársins hring en 22 létust þar í skjálftanum.

„Saletta mun hverfa líkt og svo margir smáir staðir,“ sagði Marco Beltrame í samtali við AFP. Hann missti frænda sinn og frænku í skjálftanum.

Mattarella mun einnig heimsækja þorpið Accumoli en að því loknu mun hann verða viðstaddur útfarir nokkurra látnu í Ascoli Piceno, höfuðborg Marche. Forsætisráðherrann Matteo Renzi verður einnig viðstaddur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert