Vildi óska að hann gæti beint byssu „beint á milli augna“ andstæðingsins

Paul LePage, ríkisstjóri Maine, er litríkur karakter, svo ekki sé …
Paul LePage, ríkisstjóri Maine, er litríkur karakter, svo ekki sé meira sagt. AFP

Ríkisstjóri Maine hefur á sér orðspor fyrir að láta ýmislegt frá sér fara án þess að ritskoða sig fyrst, en nú hefur hann gengið svo langt að pólitískir andstæðingar hans segja hann ekki starfi sínu vaxinn og hafa kallað eftir inngripi.

Paul LePage hefur beðið íbúa Maine afsökunar fyrir að hafa skilið eftir talhólfsskilaboð til Drew Gattine, þingmanns demókrata, þar sem hann sagði „Ég er á eftir þér.“ Hann hefur ekki beðið umræddan Gattine afsökunar vegna uppátækisins, né heldur fyrir að hafa sagt við blaðamenn að hann óskaði þess að hann gæti skorað Gattine á hólm og beint byssu „beint á milli augna hans“.

LePage, sem er repúblikani, hefur réttlætt gjörðir sínar á þeirri forsendu að Gattin hafi kallað hann rasista, en Gattin neitar að hafa sagt nokkuð slíkt.

Ríkisstjórinn litríki vakti einnig fjaðrafok síðastliðinn miðvikudag þegar hann sagði að möppur sem hann hefði séð með myndum af fíkniefnasölum sýndu fram á að 90% þeirra væru „svartir og rómanskir“ og kæmu frá Waterbury, Bronx og Brooklyn.

„Ég vil að þú sannir að ég sé rasisti,“ sagði LePage í skilaboðunum til Gattine og bætti við að hann hefði helgað líf sitt því að hjálpa svörtu fólki. Þá kallaði hann Gattine ókvæðisorði tengdu munnmökum.

„Ég vil að þú takir þetta upp og birtir því ég er á eftir þér,“ sagði hann.

Gattine sagði skilaboðin hafa komið sér verulega á óvart en hann tilkynnti þau til lögreglu. Hann sagðist ekki óttast um öryggi sitt og sagði aðeins um að ræða síðust árás ríkisstjórans gegn þingmönnum.

Michel Thibodeau, repúblikani og forseti ríkisþingsins, hefur fordæmt athæfi LePage og segir óviðurkvæðileg ummæli, frá hvorum flokknum sem væri, grafa undan opinberum stofnunum.

Líkt og fyrr segir hefur LePage skapað sér orðspor fyrir ummæli sín en í janúar síðastliðnum sagði hann að fíkniefnasalar með nöfn á borð við „D-Money, Smoothie og Shifty“ væru iðnir við að barna hvítar stúlkur Maine-ríkis. Hann baðst síðar afsökunar og sagðist hafa ætlað að segja „Maine women“ ekki „white women“.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert