Virðist sýna börn myrða Kúrda

Mennirnir sem teknir eru af lífi eru taldir kúrdískir bardagamenn.
Mennirnir sem teknir eru af lífi eru taldir kúrdískir bardagamenn. AFP

Hryðjuverksamtökin Ríki íslams hafa birt áróðursmyndband þar sem fimm börn, eitt sem er sagt breskt, eru sýnd myrða kúrdíska fanga. Á myndbandinu sjást fimm drengir í herklæðnaði standa fyrir aftan fimm krjúpandi menn í appelsínugulum samfestingum.

Drengirnir halda á byssum.

Myndbandið er textað þannig að sjá má hvaða titil samtökin gefa hverju barni. Bláeygur drengur er þannig merktur „Abu Abdullah al-Britani“ eða „Bretinn“ en ekki hefur tekist að staðfesta að pilturinn sé sannarlega breskur.

Á myndabandinu sést drengur merktur „Abu al-Bara al-Tunisi“ ávarpa mennina, sem virðast kúrdískir bardagamenn, og lofa meira ofbeldi.

Hin börnin eru sögð Abu Ishaq al-Masri, eða „Egyptinn“, Abu Fu'ad al-Kurdi og Yusuf al-Uzbaki.

Ekki er vitað hvar myndbandið var tekið upp.

Í febrúar sl. birti Ríki íslams myndband þar sem ungur breskur drengur, mögulega hinn fjögurra ára Isa Dare, sprengir bíl í loft upp og verður þannig þremur að bana. Isa Dare er sonur öfgamannsins Grace „Khadija“ Dare frá Lewisham í Lundúnum, sem ferðaðist til Sýrlands árið 2012.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert