Helmingur vill ekki að Merkel sitji áfram

Angela Merkel.
Angela Merkel. AFP

Vinsældir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, virðast fara dvínandi. Þetta leiðir ný skoðanakönnun í ljós þar sem 50% Þjóðverja segjast andvíg því að Merkel sitji sitt fjórða kjörtímabil í embætti.

Röð árása á almenna borgara í Þýskalandi í júlí, þar af tvær sem samtökin er kenna sig við íslamskt ríki hafa lýst yfir ábyrgð á, hafa í auknum mæli beint sjónum að stefnu Merkel um opin landamæri.

Helmingur þeirra er svöruðu skoðanakönnuninni, sem gerð var fyrir dagblaðið Bild am Sonntag, kváðust andvígir því að Merkel sæti áfram eftir kosningarnar sem fram fara 2017, gegn 42% þeirra sem sögðust styðja hana áfram. Í sambærilegri könnun sem blaðið lét gera í nóvember kváðust 45% vera hlynntir áframhaldandi setu Merkel en 48% voru á móti.

Þá sagði Frank-Juergen Weise, forstöðumaður innflytjendastofnunar Þýslakalands, í viðtali við blaðið að búast megi við að 300 þúsund flóttamenn hið mesta komi til Þýskalands á þessu ári.

Spurð af þýskum fjölmiðlum um áform sín fyrir komandi kosningar sagðist Merkel munu tjá sig um það þegar tíminn er réttur.

Frétt Reuters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert