Hreindýrahjörð drapst í eldingum

Hundruð villtra hreindýra fundust dauð í þjóðgarðinum Hardangervidda í Þelamörk í Noregi um helgina. Dýrin voru öll á tiltölulega litlu svæði og er talið líklegast að eldingar hafi orðið þeim að bana. Fulltrúar umhverfisstofnunar Noregs segja dauða hreindýranna afar sérstæðan.

Það var á föstudagskvöld sem veiðivörður gekk fram á dýrin í þjóðgarðinum. Þau voru öll á svæði sem var um 50-80 metrar að þvermáli. Starfsmenn umhverfisstofnunar komu á vettvang og hafa þeir talið 322 dauð hreindýr, bæði fullvaxin dýr og kálfa. Þeir hafa jafnframt tekið sýni úr dýrunum.

„Það var mikið þrumuveður síðdegis. Hjörðin varð líklega fyrir eldingum,“ segir Knut Nylend frá umhverfisstofnuninni SNO við norska ríkisútvarpið NRK.

Um 10.000 villt hreindýr búa í Hardangervidda-þjóðgarðinum. Nylend segir að um afar sérstakt tilfelli sér að ræða.

„Ég hef heyrt um nautgripi sem hafa drepist af völdum eldinga en ekki svona margir í einu. Ég man ekki eftir að hafa heyrt um að eldingar hafi drepið slíkan fjölda af dýrum,“ segir hann.

Frétt NRK af dauða hreindýranna

Hreindýr á Íslandi. Myndin er úr safni og tengist efni …
Hreindýr á Íslandi. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert