Saka forseta verkalýðsfélags um morðið

Rodolfo Illanes.
Rodolfo Illanes. AFP

Yfirvöld í Bólivíu fullyrða að forseti verkalýðsfélags námuverkamanna og tveir undirmenn hans beri ábyrgð á morði Rodolfo Illanes, aðstoðarmanni innanríkisráðherra landsins. Hann er sagður hafa verið barinn til dauða en lík hans hefur ekki fundist. 

Fjallað er um málið á vef BBC, en þar kemur fram að 40 námuverkamenn hafi verið handteknir vegna málsins, þar á meðal Carlos Mamani, forseti verkalýðsfélags námuverkamanna í Bólivíu. 

Námuverkamenn lögðu niður störf vegna nýrrar vinnulöggjafar og hafa mótmælt henni síðustu daga, en yfir hundrað verkamenn hafa verið handteknir í tengslum við málið frá því að Illanes var rænt á miðvikudag.

Innanríkisráðherrann, Carlos Romero, segir að um hafi verið að ræða hrottalega árás. Yfirvöld séu nú í viðræðum við mótmælendur um að sleppa líkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert