Segir fríverslunarviðræður hafa mistekist

Ekki er samstaða um TTIP í Evrópu og lítið hefur …
Ekki er samstaða um TTIP í Evrópu og lítið hefur miðað við samningaborðið. AFP

Fríverslunarsamningur á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna er farinn út um þúfur þó að enginn vilji enn viðurkenna það, segir Sigmar Gabriel, efnahagsmálaráðherra Þýskalands. Enginn árangur hefur náðst í viðræðunum um TTIP-samkomulagið sem hefur verið afar umdeilt á meðal almennings.

Stjórnvöld í Washington og í Brussel hafa viljað ljúka samningum fyrir árslok. Gabriel bendir hins vegar á að á fjórtán samningafundum hafi samningsaðilar ekki komist að niðurstöðu um einn kafla af þeim 27 sem eiga að vera í samningnum.

„Að mínu mati hafa samningaviðræðurnar við Bandaríkin í raun misheppnast jafnvel þó að enginn viðurkenni það raunverulega,“ segir Gabriel að því er AP-fréttastofan greinir frá.

Ráðherrann heldur því fram að stjórnvöld í Bandaríkjunum séu reið yfir samningi sem ESB gerði við Kanada um fríverslun því í þeim samningi séu atriði sem þau vilji ekki sjá í TTIP.

Talsmaður framkvæmdastjórnar ESB sagði í dag að hún hefði ekkert um stöðu viðræðnanna að segja að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert