Björguðu 6.500 mannslífum

Flóttamenn og förufólk kemur að grísku eyjunni Lesbos. Myndin tengist …
Flóttamenn og förufólk kemur að grísku eyjunni Lesbos. Myndin tengist fréttinni óbeint. AFP

Landhelgisgæsla Ítalíu bjargaði um 6.500 flóttamönnum frá Líbýu í dag. Er það einn mesti fjöldi mannslífa sem bjargað hefur verið á einum degi í allmörg ár.

Á magnþrungnum ljósmyndum má sjá flóttafólk stökkva í björgunarvestum út í Miðjarðarhafið og synda í átt að bjargvættum sínum. Landhelgisgæslan tilkynnti á Twitter-síðu sinni að stjórnstöðin hafi stýrt 40 björgunaraðgerðum og bjargað 6.500 innflytjendum.

Ágústmánuður í ár hefur ekki verið eins annasamur og síðustu ár, en þó var rúmlega 1.100 flóttamönnum bjargað á sama svæði á sunnudaginn. Um 105.000 flóttamenn höfðu komið til Ítalíu á árinu, fyrir daginn í dag.

Hafa yfir 3.000 flóttamenn farist á leiðinni til annaðhvort Grikklands eða Ítalíu frá ársbyrjun sem er um helmingi meira en var á sama tíma árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert