„Kjósið gegn ákæru, kjósið með lýðræði“

Dilma Rousseff, sem gert var að láta tímabundið af embætti forseta Brasilíu á meðan þingið tekur afstöðu til ákæru á hendur henni, sagði í varnarræðu sinni á þinginu í dag að kjósi þingið með ákærunni sé það að greiða valdaráni atkvæði sitt.

Frétt mbl.is: Búist við eldheitri varnarræðu frá Rouseff

Í ræðunni minntist hún þess þegar hún var pyntuð af einræðisstjórninni í Brasilíu á áttunda áratug síðustu aldar en tilefnið var að hún sagði stærsta ríki Suður-Ameríku nú vera á barmi þess að tapa lýðræði sínu.

Dilma Rousseff varði sjálfa sig fyrir þingheimi Brasilíu í dag.
Dilma Rousseff varði sjálfa sig fyrir þingheimi Brasilíu í dag. AFP

„Kjósið gegn ákærunni, kjósið með lýðræði. Ekki samþykkja valdaránið,“ sagði hin 68 ára Rousseff. Hún lýsti yfir sakleysi sínu og hafnaði öllum ásökunum en hún er sökuð um að hafa tekið ólögleg lán og hagrætt ríkisreikningum til að fela hallarekstur ríkisins.

Til að Rouss­eff verði gert að segja end­an­lega af sér verða at­kvæði 54 af 81 þing­manni bras­il­íska þings­ins að falla gegn henni. Þá mun Michel Temer gegna forsetaembættinu fram til kosninga 2018. Temer hefur gegnt embættinu síðan í maí á þessu ári.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert