Trump fer yfir landamærin

Stuðningsmaður Donalds Trumps á fundi með honum í gærkvöldi.
Stuðningsmaður Donalds Trumps á fundi með honum í gærkvöldi. AFP

Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, ætlar að heimsækja Mexíkó í dag þar sem hann ætlar að ræða við forseta landsins, Enrique Peña Nieto. Í kvöld ætlar hann að ávarpa kjósendur í Phoenix og fræða þá um stefnumál sín í málefnum innflytjenda.

Trump skrifar á Twitter að hann hlakki til þess að ræða við Nieto en sá síðarnefndi bauð Trump og keppinaut hans, demókratanum Hillary Clinton, á sinn fund. Vonast Nieto til þess að fundurinn verði til þess að verja hag Mexíkóa hvar sem þeir eru.

Innflytjendur frá Mexíkó hafa ekki átt upp á pallborðið hjá Trump sem hefur ítrekað sagt að hann vilji reisa múr milli ríkjanna tveggja, samkvæmt frétt á vef BBC.

Áður en hann heldur til Mexíkó mun hann mæta á fjáröflunarfund í Kaliforníu fyrir framboðið og Trump fer síðan beint frá Mexíkó til Phoenix í Arizona þar sem stefna hans í málefnum innflytjenda verður kynnt.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert