Hvorugu spáð afgerandi sigri

Fyrstu kappræðurnar fara fram aðfaranótt þriðjudags. Aðrar kappræður verða haldnar …
Fyrstu kappræðurnar fara fram aðfaranótt þriðjudags. Aðrar kappræður verða haldnar 9. október og þær þriðju 19. október. AFP

Sérfræðingar vestanhafs spá því að fyrstu kappræður Hillary Clinton og Donald Trump, sem fara fram klukkan 1 að íslenskum tíma aðfaranótt þriðjudags, muni draga metfjölda að sjónvarpstækjunum, allt að 100 milljónir.

Andstæðingarnir tveir hafa verið duglegir við að skjóta hvor á annan síðastliðið ár en hafa ekki mæst á sviði. Hvorugu hefur verið spáð afgerandi sigri í kappræðunum en á meðan Clinton býr yfir reynslu hefur það reynst Trump vel að snúa út úr og æsa andstæðinga sína.

Kappræðurnar eru sögulegar, en þetta mun verða í fyrsta sinn sem kona tekur þátt í kappræðum í aðdraganda forsetakosninga frá því þær litu fyrst dagsins ljós 1960. Þá öttu kappi John F. Kennedy og Richard Nixon.

Flestir kjósendur hafa þegar gert upp hug sinn og teljast verður líklegt að í mörgum tilvikum verði kappræðurnar aðeins til þess að gera fólk ákveðnara í afstöðu sinni. Hins vegar er umtalsverður fjöldi sem hefur ekki ákveðið sig, um 9% samkvæmt könnun NBC, og atkvæði þeirra eru enn á borðinu.

En hvað þurfa kandídatarnir að gera til að tryggja sér þau?

Clinton: Of mikið af smáatriðum?

„Við horfum yfirleitt ekki á kappræður til að sjá hvor er klárari og hvor er með fleiri staðreyndir og tölur og stefnumál á hreinu í 90 mínútur,“ segir Mitchell McKinney, prófessor í stjórnmálafræði við University of Missouri.

McKinney, sem sérhæfir sig í pólitískum kappræðum, segir sjónvarpsáhorfendur hrifnari af frambjóðendum sem nái að koma sýn sinni á framfæri með nokkrum einföldum en áhrifamiklum frösum.

Clinton, sem þykir hafa málefnin á hreinu, verður að forðast að falla í þá gildru að svara spurningum stjórnandans á of tæknilegan og ítarlegan hátt.

„Þú þarft að mynda tilfinningalegra samband við kjósendur ef þú ætlar að bera sigur úr býtum,“ segir samskiptasérfræðingurinn Carmine Gallo.

Líkt og Barack Obama sagði, þegar hann var spurður hvaða ráð hann vildi gefa utanríkisráðherranum fyrrverandi fyrir kappræðurnar: Vertu þú sjálf og útskýrðu hvað drífur þig.

En það hefur reynst áskorun fyrir Clinton; fáir frambjóðendur Demókrataflokksins síðustu ár hafa verið óvinsælli.

Clinton þarf að passa sig á því að festast ekki …
Clinton þarf að passa sig á því að festast ekki í smáatriðunum og höfða til tilfinninga fólks. AFP

Clinton hefur viðurkennt að hún búi ekki yfir umtöluðum persónutöfrum eiginmanns síns, Bill Clinton, né Obama. Stærra vandamál er e.t.v. að meira en helmingur Bandaríkjamanna er ekki viss um að henni sé treystandi.

Þegar Clinton bauð sig fyrst fram til forseta, árið 2008, ræktaði hún ímynd „járnkonunnar“. Nú hefur hún kappkostað að leggja áherslu á baráttu sína fyrir réttindum kvenna og hlutverk sitt sem ömmu, í viðleitni til að virðast viðkunnanlegri.

En það verður ekki auðvelt fyrir hana að afmá þá mynd sem fólk hefur dregið upp af henni í á aldarfjórðung. Styrkur Clinton kann að liggja í getu hennar til að svara árásartilraunum með snjöllu andsvari.

„Hver eru þessi eitt, tvö, þrjú lykilskilaboð sem þau vilja að fólk deili á Twitter og samfélagsmiðlum?“ spyr Gallo. „Hlustið eftir þessari setningu eða tveimur sem hún endurtekur nokkrum sinnum á meðan samtalinu stendur.“

Trump: Allur í bullinu?

„Trump tengir við kjósendur sína á mjög tilfinningalegu plani og það getur reynst andstæðingnum erfitt að að keppa við það þar sem tilfinningar trompa gögn,“ segir Gallo.

Hvað þetta varðar hefur viðskiptajöfurinn klárt forskot.

Engum frambjóðanda í þessum kosningum, mögulega að Bernie Sanders undanskildum, hefur tekist að æsa stuðningsmenn sína upp líkt og Donald Trump.

Sérfræðingar segja að í 90 mínútna, tveggja manna kappræðum muni …
Sérfræðingar segja að í 90 mínútna, tveggja manna kappræðum muni Trump ekki komast upp með þá taktík sem hann hefur notað fram að þessu. AFP

En Trump var hins vegar ekki óumdeildur sigurvegari allra þeirra kappræða sem fram fóru þegar forval Repúblikanaflokksins stóð yfir, stundum stóð hann bara til hliðar og leyfði andstæðingum sínum að rífa hvor annan í sig.

Á síðari stigum, þegar forsetaefnunum fækkaði, greip hann til þeirra bragða sem hann er orðinn þekktur fyrir og truflaði með niðrandi frösum og uppnefnum.

„Ólíkt því sem gerðist í forvalinu, þegar margir kandídatar voru á sviðinu og við heyrðum aðeins einstaka sinnum frá Trump, þá getur hann ekki í 90 mínútur, þegar hann á helminginn af tímanum, fyllt hann með einnar línu frösum, sjálfshóli, árásum - það verður þreytt,“ segir McKinney.

„Hann mun fá fleiri tækifæri til að leggja fram eitthvað efnislegt. En mun hann hafa eitthvað efnislegt að leggja fram þegar að því kemur? Það kemur í ljós.“

Starfsfólk Clinton hefur áhyggjur af því að stjórnandi kappræðanna, Lester Holt hjá NBC, muni mata Trump af einföldum spurningum en yfirheyra Clinton. Hvernig sem fer verða svör forsetaefnanna rýnd til agna.

Seinni kappræðurnar tvær fara fram 9. október og 19. október en Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu 8. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert