Morðinginn 20 ára piltur

Arcan Cetin.
Arcan Cetin. AFP

Lögregla í Bandaríkjunum hefur handtekið manninn sem grunaður er um að hafa skotið fimm til bana í verslunarmiðstöð i Washington-ríki á föstudag. Maðurinn er Arcan Cetin, 20 ára íbúi bæjarins Oak Harbor, en ekki er talið að hann hafi átt sér vitorðsmenn.

Á Facebook-síðu sem virðist hafa verið stofnuð af Cetin segir að hann sé fæddur í Adana í Tyrklandi, gangi í menntaskólann í Oak Harbor og hafi unnið í matvöruverslun.

Í febrúar birti hann færslu þar sem skotleikurinn Call of Duty kom við sögu, en notendur YouTube hafa skilið eftir ófögur skilaboð við umrætt myndband og á Twitter-síðu Cetin í kjölfar morðanna.

Cetin hóf skothríð í snyrtivörudeild Macy's á föstudag. Fjórar konur og maður létust í árásinni. Ungmennið notaðist við riffil.

Alríkislögreglan segir enga ástæðu til að ætla að atvikið tengist hryðjuverkastarfsemi.

Cetin yfirgaf verslunina fótgangandi en á meðan leit að honum stóð yfir fannst vopn við Cascade-verslunarmiðstöðina í Burlington. Íbúar Burlington eru um 8.000 en bærinn er í um 110 km fjarlægð frá Seattle.

Það hefur vakið athygli að Cetin sást ganga inn í verslunarmiðstöðina vopnlaus en birtist á öryggismyndavélum haldandi á riffli aðeins tíu mínútum síðar. Um 200 lögreglumenn voru á vettvangi þegar mest var.

„Ég veit ekki hvað varð til þess að hann gerði þetta,“ sagði Chris Cammock, lögreglustjóri nálæga bæjarins Mount Vernon. „En ég hyggst sannarlega komast að því.“

Yngsta fórnarlamb Cetin var Sarai Lara, 16 ára, sem gekkst undir krabbameinsmeðferð á barnsaldri. Annað fórnarlamb var hin 52 ára Shayla Martin, sem starfaði í snyrtivörudeild Macy's.

„Þetta er virkillega erfiður tími,“ sagði systir Martin, Karen Van Horn, í samtali við The Seattle Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert