Banvænt BDSM kynlíf

Frá Austurríki.
Frá Austurríki. AFP

Vændiskona í Vínarborg er ákærð fyrir að hafa vísvitandi veitt viðskiptavini áverka sem leiddu til dauða hans. Maðurinn fannst hengdur í hótelherbergi eftir að hafa keypt þjónustu konunnar.

Konan, sem er 29 ára hárgreiðslukona, hóf að starfa sem dómína (dominatrix) fyrir þá sem kaupa sér BDSM-þjónustu, í mars 2015. Ástæðan var fátækt hennar. Að sögn lögfræðings hennar, Martin Mahrer, ætlaði hún sér ekki að setja manninn í hættu og að hún beri ekki ábyrgð á dauða hans, að því er segir í frétt The Local

Vændiskonan auglýsti þjónustu sína á BDSM-síðum á netinu og bauð upp á kæfingar og þrælahald. Mahrer segir að maðurinn hafi sjálfur sett hengingarólina um háls sér en hann missti meðvitund og lést hangandi í fatahengi hótelherbergisins.

Fyrir ári síðan setti maðurinn sig í samband við vændiskonuna og hittust þau í nokkur skipti. Þar ræddi hann það sem hann vildi fá út úr þjónustu hennar, meðal annars að fá fullnægingu með þrengt að hálsi sínum.

Það var síðan 12. september sem draumur hans varð að veruleika en áður en hann setti hengingarólina um háls sér rétti hann vændiskonunni bréf þar sem hann sagðist bera fulla ábyrgð á þeirri hættu sem gæti skapast. Jafnframt kom fram í bréfinu að hann gerði sér fyllilega grein fyrir því að þessi hneigð hans gæti kostað hann lífið.

En þetta kvöld missti hann ekki meðvitund svo að hann skrifaði konunni skilaboð og bað hana um að hitta sig aftur kvöldið eftir. Í þetta skiptið setti hann límband um höfuð sér og munn áður en hann setti höfuðið í snöruna. Hún batt jafnframt skóreim um háls mannsins og  herti eins mikið að hálsi hans og hún gat. 

Maðurinn missti meðvitund og sleppti konan takinu á skóreiminni og yfirgaf herbergið þar sem hann hékk meðvitundarlaus í hengingarólinni. Hún segir að síðar um kvöldið hafi hún farið að hafa áhyggjur af honum og sendi honum skilaboð. Þegar hann svaraði ekki fór hún aftur á hótelið og bankaði á dyrnar á herberginu. Þegar hann svaraði ekki fór hún í móttökuna en þar fékk hún þau svör að ef hann væri dauður þá fyndist hann morguninn eftir. Konan var ekki sátt við þau svör og fór til lögreglunnar og sagði hvað hafði gerst. Lögreglan fór á vettvang og fann manninn látinn hangandi í snörunni.

Í krufningarskýrslunni kemur fram að maðurinn hafi látist vegna súrefnisskorts vegna hengingar og ef konan verður fundin sek á hún yfir höfði sér fimm til 15 ára fangelsisvist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert