Draugaborgin Aleppo

Átökin bitna fyrst og síðast á almennum borgurum.
Átökin bitna fyrst og síðast á almennum borgurum. AFP

„Allir eru að bíða eftir því að geta fundið leið út úr Aleppo,“ segir Monther Etaky í umfjöllun fréttastöðvarinnar CNN um ástandið í borginni. „Nú er borgin draugaborg,“ segir Etaky ennfremur. Etaky, sem er 28 ára gamall grafískur hönnuður, býr í borginni og á tveggja mánaða gamlan son.

„Það eru einvörðungu sjúkrabílar og slökkviliðsbílar á ferðinni og undanfarna þrjá daga hafa sprengjuárásirnar verið skelfilegar,“ segir hann.

Eyðileggingin er gríðarlega mikil.
Eyðileggingin er gríðarlega mikil. AFP

„Hingað til hef ég náð að venjast tunnusprengjunum og náð að festa svefn. Núna get ég það ekki - nýju flugskeytin eru svo hávær og hræðileg.“

Fram kemur í umfjöllun CNN, að yfir 200 loftárásir ahfi verið gerðar á Aleppo um helgina, en borgin hefur verið í höndum uppreisnarmanna.

Yfir 100 létust í þessum árásum og fleiri hundruð særðust að sögnAmmar al-Selmo, sem stýrir samtökum sjálfboðaliða sem veita læknishjálp í borginni, en samtökin nefnast á enskuSyriaCivilDefense. 

Móðir grætur með ungt barn sitt sem lést þegar það …
Móðir grætur með ungt barn sitt sem lést þegar það grófst undir rústum húss sem varð fyrir sprengjuárás. AFP

Villimennska

Æðstu embættismenn Sameinuðu þjóðanna voru ómyrkir í máli um liðna helgi er þeir sögðu að hernaðaraðgerðir sýrlenskra stjórnvalda á svæðinu væru ekkert annað en villimennska. 

Sýrlenskar hersveitir hófu að gera harðar árásir á austurhluta Aleppo á sunnudag eftir skammvinnt vopnahlé, sem Bandaríkjamenn og Rússar höfðu milligöngu um. Þá létust að minnsta kosti 85 og yfir 300 særðust. 

Fáir kostir í stöðunni

Sonur Etaky hefur verið með hita en Etaky segir að hann hafi ekki náð að útvega syni sínum aðstoð í ljósi aðstæðna. 

Þá segir að verð á matvælum hafi rokið upp úr öllu valdi. Fjölskylda Etakys treystir á linsubaunir, hrísgrjón og eggaldin. Hann fer ávallt með syni sínum og eiginkonu, sem hann hefur verið kvæntur í eitt ár, til að kaupa í matinn af ótta við að sprengja hæfi húsið þeirra. á meðan hann er í burtu. 

Verð á matvælum í borginni hafa rokið upp úr öllu …
Verð á matvælum í borginni hafa rokið upp úr öllu valdi. AFP

„Mín eina von er að leið opnist og ég geti yfirgefið Aleppo. Vandinn er hins vegar sá, að Rússarnir eru ekki reiðubúnir að gefa eftir á næstunni,“ segir Etaky. 

Heilbrigðisstofnanir eru fyrir löngu komnar að þanmörkum og fáir kostir eru í stöðunni. 

„Sjúkrahúsin eru öll full og læknarnir önnum kafnir,“ segir Etaky ennfremur. „Það er ekki til nein mjólk handa börnum.“

Ástandið í borginni er hræðilegt.
Ástandið í borginni er hræðilegt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert