Kúlnaregn fjórða daginn í röð

AFP

Á meðan íbúarnir svelta þá rignir sprengjum yfir Aleppo, einkum þá sem búa í hverfum sem eru undir yfirráðum uppreisnarmanna. 

Fréttamaður AFP sem er í Aleppo segir að fjölmargar loftárásir hafi verið gerðar á Al-Mashhad og Sayf al-Dawla hverfin sem eru í austurhluta borgarinnar.  Ekki er vitað hversu margir létust en vitað er um eitthvað mannfall. Þetta er fjórði dagurinn í röð sem Sýrlandsher og bandamenn hans láta sprengjur rigna yfir borgarbúa. 

Um 130 manns, nánast allt almennir borgarar, hafa látist í árásum stjórnarhersins og Rússa í Aleppo frá því á fimmtudagskvöldið. Meðal látinna eru 20 börn.

Í sveitum Aleppo hafa 36 almennir borgarar, þar af 11 börn, látist á sama tímabili. Mjög illa gengur að veita öllum þeim sem hafa særst læknisaðstoð því hjálpargögn eru af skornum skammti. Eins eru sjúkrahús og læknar ekki á hverju strái í Aleppo eftir margra ára umsátur eða allt frá árinu 2012.

Borgarbúar í Aleppo þurfa nú að greiða 500 sýrlensk pund, sem svarar til 130 króna, fyrir brauðhleif en í síðustu viku kostaði hann 350 pund. En það er heldur ekki á valdi margra að kaupa mat því fátæktin er gríðarleg. Eins getur reynst þrautin þyngri að finna eitthvað matarkyns til að kaupa. Alls staðar eru biðraðir fyrir utan þau fáu bakarí sem enn eru starfandi í borginni og algengt að fólk bíði í 12-16 klukkustundir eftir brauðbita. 

Súpueldhús sem hafa verið starfrækt í borginni eru flest búin að skella í lás enda enginn matur í boði og stöðugar loftárásir gera það einfaldlega of hættulegt fyrir fólk að safnast saman.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert