Spáði fyrir um eiginn dauða

Wickrematunga ásamt öðrum blaðamanni.
Wickrematunga ásamt öðrum blaðamanni. Wikipedia/Sunalie Ratnayake

Lík blaðamannsins Lasantha Wickrematunge, sem var myrtur skömmu áður en borgarastryjöldinni í Sri Lanka lauk árið 2009, verður grafið upp og krufið á ný. Rannsókn stendur yfir á dauða Wickrematunge, sem spáði því að hann yrði myrtur af stjórnvöldum.

Gröf Wickrematunge í Colombo hefur verið undir eftirliti frá því að tilkynnt var í byrjun september að lík hans yrði krufið á ný. Þá voru tveir mánuðir liðnir frá því að maður sem starfaði fyrir leyniþjónstu hersins var handtekinn í tengslum við málið.

Wickrematunge, sem var ritstjóri dagblaðsins Sunday Leader, sá dauða sinn fyrir og skrifaði um morð sitt í ritstjórnargrein sem var birt þremur dögum eftir að hann var skotinn til bana af byssumönnum á mótorhjólum á leið til vinnu í janúar 2009.

„Þegar ég verð á endanum drepinn, þá verður það ríkisstjórninn sem drepur mig,“ skrifaði Wickrematunge í 2.500 orða grein sem var birt í Guardian og New York Times, og vakti athygli á stöðu blaðamanna í Sri Lanka.

Wickrematunge beindi orðum sínum að þáverandi forseta, Mahinda Rajapaska, og spáði því að rannsókn yrði hrundið af stað í kjölfar dauða síns, „en líkt og allar rannsóknir sem þú  hefur fyrirskipað í fortíðinni, þá mun þessi ekki heldur skila neinum niðurstöðum.“

Rannsóknin á dauða Wickrematunge dróst sannarlega á langinn þar til Rajapaska tapaði óvænt í kosningum í janúar 2015 og núverandi forseti, Maithripala Sirisena, hét því að finna morðingja blaðamannsins.

Í mars sl. kom forsetinn á fót embætti sem er ætlað að rannsaka ofbeldi gegn blaðamönnum í áratugslangri valdatíð Rajapaska, þ. á m. morðið á Wickrematunge og hvarf Prageeth Ekanaligoda, skopmyndateiknara sem sást síðast þar sem hann var dreginn inn í hvítan sendiferðabíl nærri skrifstofu sinni í janúar 2010.

Starfsmaður leyniþjónustunnar, sem fjölmiðlar kalla P. Udalgama, var handtekinn í júlí og situr í gæsluvarðhaldi.

Rannsakendur fóru fram á að lík Wickrematunge yrði krufið á ný þar sem tvær rannsóknir sem framkvæmdar voru á sínum tíma skiluðu ólíkum niðurstöðum; ein komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði dátist af völdum skotsára en hin sagði engin ummerki hafa fundist um skotsár.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert