Kónguló beit mann í typpið (aftur)

Ekki er vitað hverrar tegundar kóngulóin var en þessi hér, …
Ekki er vitað hverrar tegundar kóngulóin var en þessi hér, með rauða rönd á bakinu, er eitruð og skyld hinni alræmdu svörtu ekkju.

Eitruð kónguló beit 21 árs Ástrala í typpið. Þetta er í annað sinn sem ungi maðurinn verður fyrir slíkri árás.

Í frétt BBC segir að maðurinn hafi verið að nota kamar á byggingarsvæði í Sydney í gær er atvikið átti sér stað. Hið sama gerðist fyrir manninn fyrir aðeins fimm mánuðum. 

Maðurinn heitir Jordan og vill ekki láta fulls nafns síns getið. Hann segir að kóngulóin hafi bitið hann „á nánast sama stað“ í þetta sinn.

„Ég er óheppnasti maður landsins í augnablikinu,“ segir hann í samtali við BBC. „Ég sat á kamrinum að sinna mínum málum og fann bara stungu á á sama stað og síðast. Ég hugsaði: „Ég bara trúi því ekki að þetta sé að gerast aftur“. Ég leit niður og sá nokkra litla fætur koma undan brúninni.“

Jordan segir að eftir fyrra bitið hafi hann verið var um sig er hann notaði kamarinn. „Eftir fyrra skiptið þá vildi ég í raun ekki nota hann aftur. Klósettin voru þrifin þennan dag svo ég hugsaði að nú væri tækifæri til að nota eitt þeirra. Ég leit undir setuna og svo settist ég og gerði það sem ég þurfti að gera. Það næsta sem ég veit er að ég er í keng af sársauka.“

Jordan segist ekki vita hvaða tegund kóngulóar beit hann í þetta skiptið.

Hann segir að vinnufélagarnir hafi verið uggandi í fyrra skiptið en núna hafi þeir gert grín að honum. Jordan var fluttur á sjúkrahús og er á batavegi. Hann segir ólíklegt að hann geri þarfir sínar á kamri framar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert