Segir sögur að heiman, svangur og hræddur

Björgunarmenn flytja á brott lík stúlku sem varð undir rústum …
Björgunarmenn flytja á brott lík stúlku sem varð undir rústum í loftárás stjórnarhersins. AFP/Karam al-Masri

Röð harmleikja hefur sett mark sitt á líf Karam al-Masri síðustu fimm ár. Al-Masri er blaðamaður AFP, ljósmyndari og vídeófréttamaður í Aleppo. Á síðustu árum hefur hann sætt varðhaldi í höndum stjórnarhersins og Ríkis íslams, misst foreldra sína í loftárás, og upplifað umsátur um heimaborgina sína auk hungurs og stöðugra árása.

Allan þennan tíma hefur hann verið ötull við fréttaflutning og hefur, af óhagganlegu hugrekki, sagt sögu borgar sem lögð hefur verið í rúst.

Þetta er saga al-Masri:

Áður en uppreisnin hófst í Sýrlandi árið 2011 lifði ég einföldu lífi. Ég var laganemi við Aleppo-háskóla. En í dag hef ég misst allt: fjölskylduna mína, háskólann minn. Ég er einkabarn. Það sem ég sakna mest er faðir minn, móðir mín. Sérstaklega hún. Ég hugsa um hana á hverjum degi, ég sé hana í draumum mínum. Enn í dag finn ég fyrir missinum. Ég bý einn, ég á engan að. Flestir vina minna eru horfnir á braut; annað hvort dánir eða í útlegð.

Karam al-Masri að störfum í júní á þessu ári.
Karam al-Masri að störfum í júní á þessu ári. AFP

Frá því að loftárásirnar á Aleppo hófust hefur líf mitt snúist um að reyna að halda lífi. Það er líkt og ég búi í frumskógi og ég sé að reyna að lifa fram á morgun. Þegar flugvélarnar koma reyni ég að leita skjóls í öruggari byggingu. Ef um er að ræða stórskotaárás held ég til á neðri hæðum. Ég er á stöðugum flótta. Áður en  umsátrið hófst reiddi ég mig á skyndibitastaði en nú hefur öllu verið lokað. Ég kann ekki að elda og það koma dagar þar sem ég borða aðeins eina máltíð, og aðrir þar sem ég neyti einskis. Áður en umsátrið hófst varði ég dögunum úti við að leita að sögum til að festa á filmu. En eftir að umsátrið  byrjaði er ég svangur og veiklulegri og ver meiri tíma heima við.

Þegar uppreisnin braust út árið 2011 var ég nærri 20 ára gamall. Tveimur eða þremur mánuðum seinna var ég handtekinn af leynilögreglu stjórnarinnar. Ég dvaldi í fangelsi í mánuð, þar af viku í einangrun í þröngum klefa. Það var hræðilegt en mér var sleppt og veitt sakaruppgjöf árið 2011. Þegar uppreisnin hófst var boðað til friðsamlegra mótmæla. Það voru engar sprengjuárásir. Það var ekkert að óttast nema varðhald og leyniskyttur á götunum.

Íbúar reyna að koma manni til aðstoðar er hann grætur …
Íbúar reyna að koma manni til aðstoðar er hann grætur yfir látnu barni sínu eftir loftárás. AFP/Karam al-Masri

Rænt af Ríki íslam

Árið á eftir, í júlí 2012, skiptist Aleppo í tvo hluta; austurhlutinn var undir stjórn uppreisnarmanna og vesturhlutinn stjórnarhersins. Í nóvember 2013, þegar ég var 22 ára, var mér rænt af Daesh (Ríki íslam). Þeir tóku mig þar sem ég var í sjúkrabifreið ásamt vinum mínum; bráðaliða og ljósmyndara. Við vorum allir fluttir á óþekktan stað. Það var verra en að dvelja í fangelsum stjórnarinnar. Það var mjög, mjög erfitt.

Ljósmyndaranum og mér var sleppt eftir sex mánuði, við sakaruppgjöf, en vinur okkar, bráðaliðinn, var ekki jafn heppinn. Hann var afhöfðaður eftir 55 daga í fangelsi. Þeir tóku það upp og sýndu okkur myndbandið: „Sjáið vin ykkar, þetta mun bráðlega koma fyrir ykkur.“ Við vorum skelfingu lostnir. Ég var alltaf hræddur. Ég hugsaði: „Á morgun kemur að mér, ekki á morgun heldur hinn kemur að mér.“

Ég man enn hvert smáatriði. Hinir 165 dagar í haldi Ríkis íslam eru ljóslifandi í minningunni. Fyrstu 45 dagana fengum við aðeins að borða þriðja hvern dag. Maturinn samanstóð af hálfum skammti af arabísku flatbrauði eða þremur ólívum eða eggi. Ég sá ekki einn einasta shabbih (stjórnarhermann); allir þeir sem voru í haldi með okkur voru uppreisnarmenn, aðgerðasinnar eða blaðamenn.

Björgunarmaður horfir til himins í Ansari í Aleppo eftir loftárá …
Björgunarmaður horfir til himins í Ansari í Aleppo eftir loftárá stjórnarhersins, Borgin er í rúst, ekki síst þau svæði sem enn eru undir stjórn uppreisnarmanna. AFP/Karam al-Masri

Ég var pyntaður í bæði skiptin sem ég var í haldi. En það var verra hjá stjórnarhernum því þeir vildu að ég játaði hverjum ég starfaði með. Hjá Daesh lágu sakirnar fyrir fyrirfram; ég var með myndavél í fórum mínum og var heiðingi, þannig að það var engin þörf á því að yfirheyra mig.

Ég missti fjölskylduna mína í byrjun árs 2014, þegar ég var enn í haldi Ríkis íslam. Tunnusprengja lenti á húsinu okkar og varð öllum íbúunum að bana, þeirra á meðal foreldrum mínum. Ég komst að þessu þegar mér var sleppt. Vinir mínir reyndu að sannfæra mig um að fara ekki heim og sögðu mér hvað hafði gerst. Ég varði mánuði í algjörri örvæntingu. Ég fékk engar fréttir af foreldrum mínum í fangelsinu og þegar mér var sleppt voru þeir farnir. Þeir höfðu beðið fregna af mér en á endanum voru þau ekki til staðar til að fagna lausn minni.

Árið 2016 hófst umsátrið um borgina. En fyrir mig er umsátrið auðveldara en að sitja í fangelsi og missa foreldra mína.

Gluggi að heiminum

Ég fékk hugmyndina að því að verða myndatökumaður árið 2012, þegar ég tók mótmæli upp á símann og setti myndskeiðin á internetið til að sýna hvað væri raunverulega að gerast, að þetta væru ekki bara tíu manns eða hryðjuverkamenn eins og stjórnvöld héldu fram. Þetta var fólk sem vildi stjórnvöld frá, það vildi frelsi, lýðræði, réttlæti. Ég hóf störf sem lausapenni hjá AFP og varð betri með tímanum. Ég horfði á fréttir á erlendum stöðvum til að sjá hvernig þeir tóku upp, hvaða sjónarhorn þeir notuðu, og reyndi að herma eftir.

Íbúar syrgja er lík barna sem létust í loftárásum stjórnarhersins …
Íbúar syrgja er lík barna sem létust í loftárásum stjórnarhersins eru borin á brott í Al-Shaar í Aleppo. AFP/Karam al-Masri.

Það hvarflaði aldrei að mér að gerast blaðamaður en með tímanum hef ég lært að meta þetta starf. Ég ber mikla virðingu fyrir blaðamennsku og ég iðka hana af heiðarleika. Jafnvel þótt ég sé sammála stjórnarandstöðunni, búi á svæði sem er á valdi stjórnarandstöðunnar og taki þátt í mótmælum gegn stjórninni, þá forðast ég að mynda á hlutdrægan hátt og taka afstöðu með stjórnarandstöðunni í störfum mínum. Mér finnst þetta starf heilagt og ég vanda mig vel. Ef eitthvað er vafasamt eða virðist ekki raunverulegt mynda ég það ekki.

Að vinna með blaðamönnum erlendis, eða utan umsáturssvæðanna, er eins og hafa glugga til að senda skilaboð til heimsins fyrir utan.

Blóðsúthellingarnar og sprengjuárásirnar eru orðnar hefðbundnar og einnig myndirnar af börnum undir rústum, slösuðum, sundruðum líkömum. Ég hef vanist því, ólíkt því sem áður var. Í árslok 2012, þegar fyrsta blóðbaðið átti sér stað, þegar ég sá mann sem  hafði misst fótinn, varð ég veikur og það leið yfir mig við að sjá blóð, af því að það var í fyrsta skiptið. Núna er það venjulegt.

Það erfiðasta sem ég gæti gert væri að snúa heim. Til þessa dags hef ég ekki fundið styrkinn til þess. Frá 2014 er það eina svæðið í Aleppo sem ég forðast, ég get ekki farið þangað. Það myndi vekja upp gamlar minningar. Mér er sagt að búið sé að eyðileggja bygginguna...

Það er takmarkað vöruúrvalið á mörkuðum í Aleppo um þessar …
Það er takmarkað vöruúrvalið á mörkuðum í Aleppo um þessar mundir. AFP/Karam al-Masri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert