Segir frumvarpið „hættulegt fordæmi“

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði frumvarpið veita „hættulegt fordæmi“ fyrir einstaklinga …
Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði frumvarpið veita „hættulegt fordæmi“ fyrir einstaklinga víða um heim að höfða mál gegn bandarískum stjórnvöldum. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði Bandaríkjaþingi hafa orðið á mikil mistök með því að þrýsta í gegn frumvarpi sem heimilar lög sem eiga að koma í veg fyr­ir að ríki njóti friðhelgi í þeim til­fell­um þar sem þau eru ábyrg fyr­ir hryðju­verka­árás­um sem leiða til dauða banda­rískra rík­is­borg­ara á banda­rískri grund.

Obama sagði frumvarpið veita „hættulegt fordæmi“ fyrir einstaklinga víða um heim að höfða mál gegn bandarískum stjórnvöldum.

Atkvæðagreiðslan í gær var sú fyrsta í átta ára forsetatíð Obama sem þingheimur hafnar ógildingu hans.

Frétt mbl.is: Þingið snýst gegn Obama

John Brennan, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, tók í sama streng og Obama og sagði frumvarpið geta falið í sér „alvarlegar afleiðingar“ fyrir  öryggi bandarísku þjóðarinnar. „Annmarkarnir eru verulegir,“ hefur fréttavefur BBC eftir Brennan.

Frum­varpið mun gera ætt­ingj­um fórn­ar­lamba árás­ar­inn­ar 9. sept­em­ber 2001 kleift að fara í mál við Sádí-Ar­ab­íu sem tengd hafa verið við hryðju­verk­in, þar sem tæplega 3.000 manns létu lífið. 15 þeirra 19 sem stóðu að árásunum voru sádí-arabískir ríkisborgarar. Stjórnvöld í landinu, sem hefur lengi verið bandamaður Bandaríkjanna, hafna hins vegar alfarið ábyrgð.

„Þetta er hættulegt fordæmi og dæmi um það hvers vegna maður verður stundum að taka erfiðar ákvarðanir,“ sagði Obama í viðtali við  CNN. „Og satt best að segja þá óska ég þess að þingið hefði  tekið þessa erfiðu ákvörðun.“ Obama sagði þá afstöðu sína hafa ekkert með Sádí-Arabíu að gera, né samúð hans með fjölskyldum fórnarlamba árásanna 11. september.

„Hún hefur allt með það að gera að mig langar ekki til að sjá fram á aðstæður þar sem við eru skyndilega berskjölduð fyrir lögsóknum vegna hernaðar okkar víða um heim.“

Óheppilegt að greiða atkvæði gegn fjölskyldum fórnarlamba skömmu fyrir kosningar

Fréttavefur BBC segir fjölskyldur fórnarlambanna og lögfræðinga þeirra hafa hafnað þessum rökum.

„Við gleðjumst yfir þessum sigri og hlökkum til að mæta í réttarsal og þess tíma þegar við getum loksins fengið frekari svör um það hver stóð raunverulega að árásunum,“ sagði Terry Strada, sem fer fyrir samtökum fjölskyldna fórnarlambanna og þeirra sem krefjast réttlætis gegn hryðjuverkum.

Obama telur atkvæði þingmannanna endurspegla áhyggjur þeirra af því að það komi illa út að  greiða atkvæði gegn fjölskyldum fórnarlambanna svo skömmu fyrir kosningar.

Öld­unga­deild­in kaus með ógild­ingu neit­un­ar­inn­ar með 97 at­kvæðum á móti 1 og í full­trúa­deild­innni féllu atkvæði 348 á móti 77 at­kvæðum.

Josh Earnest, talsmaður Hvíta hússins sagði atkvæðagreiðsluna, vera það „alvandræðalegasta sem Bandaríkjaþing hafi gert“ í áratugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert