Stjórn Súdan sökuð um efnavopnanotkun

Konur á leið í Abu Shouk flóttamannabúðirnar í Darfur. Súdönsk …
Konur á leið í Abu Shouk flóttamannabúðirnar í Darfur. Súdönsk stjórnvöld eru nú sökuð um að hafa beitt efnavopum á íbúa héraðsins. AFP

Stjórnvöld í Súdan eru talin hafa beitt efnavopnum á eigin borgara. Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að talið sé að um 200 manns hafi verið drepin í Súdan með efnavopnum frá því í janúar og er fjöldi barna í þeim hópi.

Blóðugar uppsölur, öndunarerfiðleikar og húð sem hreinlega dettur af eru meðal þeirra einkenna sem orðið hefur vart hjá þeim sem taldir eru hafa orðið fyrir efnavopnaárásum.

Súdönsk stjórnvöld og uppreisnarmenn hafa barist um völdin yfir Darfur héraði sl. 13 ár, en árið 2004 var varaði við mögulegu þjóðarmorði í Darfur. Nýjar skýrslur þar sem greint er frá ítrekuðum efnavopnaárásum stjórnarhersins sýna að mati Tirana Hassan, sem hefur umsjón með rannsóknunum hjá Amnesty, að „ekkert hefur breyst.“

Amnesty segir átta mánaðar rannsókn samtakanna í Súdan hafa sýnt að í Jebel Marra, afskekktu svæði Darfur þá sé enn „sviðin jörð, hópnauðganir, dráp og sprengingar.“

Rannsakendur segjast hafa fundið 56 vitni að að efnavopnanotkun súdanskra stjórnvalda í a.m.k. 30 tilfellum.

„Það er erfitt að lýsa umfangi og hrottaskap árasanna,“ sagði Hassan í samtali við BBC. „Myndirnar og myndbandsupptökurnar sem við höfum séð við rannsókn okkar er sláandi. Á einu þeirra æpir barn af sársauka áður en það deyr, margar myndir sýna ung börn þakin  sárum og blöðrum. Sum gátu ekki andað og köstuðu upp blóði.“

Vitni greindu Amnesty frá úldinni og „óeðlilegri“ lykt af reyk sem liðaðist um loftið eftir að sprengjum var varpað og margir byrjuðu að kasta upp fljótlega á eftir. Oft var blóð í uppsölum og niðurgangi, á meðan að aðrir voru með þrútin augu. Augu breyttu þá jafnvel um lit og húðin harðnaði og datt af.

Tveir óháðir sérfræðingar sem Amnesty leitaði til voru sammála um að sárin og einkennin sem lýst hefur verið gætu verið afleiðing efnavopnaárása.

Amnesty hvetur nú til þess að málið verði rannsakað og að stjórnvöld annarra ríkja þrýsti á stjórnvöld í Súdan að heimila hjálparstofnunum aðgang að Darfur til að aðstoða íbúa þar.

Sárin þykja bera einkenni efnavpnaárásar.
Sárin þykja bera einkenni efnavpnaárásar. Ljósmynd/Amnesty International
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert