Ungbarn líkist öldungi

Drengurinn ber skýr hrörnunarmerki að sögn lækna.
Drengurinn ber skýr hrörnunarmerki að sögn lækna.

Foreldrar drengs sem fæddist í Bangladess á sunnudag hafa fengið óvenjulega margar heimsóknir undanfarna daga, en ástæðan er sú að fjölmargir vilja berja son þeirra augum. Drengurinn er með hrukkur og lítur út eins og hann sé 80 ára, þrátt fyrir að vera aðeins nokkurra daga gamall. 

Læknar sem hafa meðhöndlað drenginn þessa fyrstu daga lífs hans segja hann þjást af sjúkdómi sem veldur því að hann eldist hratt, að því er fram kemur í frétt The Mirror. Sjúkdómurinn heitir progeria og er arfgengur hrörnunarsjúkdómur sem er gífurlega sjaldgæfur, en aðeins einn af hverj­um fjór­um til átta millj­ón­um fæðist með sjúk­dóm­inn. Veldur hann því að líkamar barna verða líkt og þeir séu 100 ára gamlir áður en þau verða unglingar.

Aðeins nokk­ur hundruð manns eru með Proger­ia og eru ein­kenni hans m.a. hár­miss­ir, lít­ill vöxt­ur, liðarýrn­un og hjarta­sjúk­dóm­ar. Þeir sem grein­ast með proger­ia lifa oft­ast ekki leng­ur en til 13 ára ald­urs og deyja yf­ir­leitt úr hjarta­áfalli eða heila­blóðfalli.

„Barnið lítur alls ekki út eins og ungbarn. Það eru augljós merki hrörnunar eins og hrukkur og gróf húðgerð,“ sagði læknir sem hefur meðhöndlað drenginn. Foreldrarnir eru hins vegar í skýjunum með fæðingu „kraftaverkadrengsins“ þeirra.

Biswajit Patro, faðir drengsins, segist yfir sig hamingjusamur. „Við getum aðeins þakkað Guði. Það er engin þörf á því að vera sorgmæddur yfir útliti sonar míns. Við munum taka honum alveg eins og hann er. Við erum svo ánægð að hafa eignast þennan dreng.“

Patro og eiginkona hans, Parul Patro, hafa ekki haft undan því að taka á móti gestum síðustu daga. „Við erum búin að fá mjög mikið af heimsóknum. Ættingjar, nágrannar og fólk úr þorpunum hér í kring hefur komið til að sjá son okkar. Við tökum glöð á móti þeim öllum.“

Fyrir áttu þau hjónin dóttur og segjast afar ánægð með það að vera orðin að fjögurra manna fjölskyldu.

Læknarnir segja barnið braggast vel núna, en ekki sé víst hvað framtíðin ber í skauti sér. Fjölskyldan vonar þó að drengurinn verði heilbrigður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert