Facebook vill ekki brjóstakrabbamyndband

Cancerfonden er ekki sammála Facebook því að læknisfræðilegar upplýsingar teiknimyndarinnar …
Cancerfonden er ekki sammála Facebook því að læknisfræðilegar upplýsingar teiknimyndarinnar geti talist dónalegar.

Sænskt myndband sem ætlað er að vekja athygli á hættunni á brjóstakrabba var fjarlægt af samfélagsmiðlinum Facebook af því að fyrirtækið taldi myndbandið vera dónalegt. Þetta staðfestir sænska krabbameinsfélagið Cancerfonden í samtali við AFP-fréttastofuna.

Um var að ræða teiknimynd sem sýndi konu með hringlaga brjóst og var myndbandinu ætlað að útskýra hvernig konur gætu skoðað brjóst sín og leitað að þykkildum sem kynnu að reynast æxli.

Cancerfonden hefur án árangurs reynt að ná sambandi við forsvarsmenn Facebook til að fá myndbandið birt á ný.

„Okkur finnst óskiljanlegt og skrýtið hvernig hægt er að túlka læknisfræðilegar upplýsingar sem dónalegar,“ sagði Lena Björnstad, upplýsingafulltrúi Cancerfonden, í samtali við AFP.

„Þetta eru upplýsingar sem geta bjargað mannslífum og sem eru okkur mikilvægar,“ sagði hún. „Þetta kemur í veg fyrir að við getum miðlað þeim.“

Athygli vekur að myndband um brjóstakrabba sem íslenska krabbameinsfélagið birtir á sinni Facebook-síðu virðist hafa sloppið í gegnum nálaraugað, þó þar megi einnig sjá teiknimynd af berum brjóstum og nöktum líkama í læknisfræðilegu samhengi.


Ekki er langt síðan að sú ákvörðun Facebook að eyða þekktri fréttaljósmynd af nakinni víetnamskri stúlku, sem flýr undan napalm sprengjum, úr færslu Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, vakti harða gagnrýni. Facebook sagði myndina brjóta gegn reglum fyrirtækisins en dró þá ákvörðun sína síðar til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert