Sóknin gegn Mosúl gengur framar vonum

Sérsveitir íraska hersins náðu í dag aftur völdum yfir bænum Bartalla í útjaðri borgarinnar Mosúl í Írak samhliða nýrri sókn kúrdískra hersveita að borginni sem er síðasta vígi hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í landinu.

Fram kemur í frétt AFP að Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, hafi greint frá því á alþjóðlegum fundi í París, höfuðborg Frakklands, að fjögurra daga sókn að Mosúl hefði gengið betur en vonir hafi staðið til. Bærinn Bartalla er innan við 15 kílómetra frá austurhluta Mosúl og var að mestu byggður kristnum Írökum. Þeir flúðu margir á braut þegar Ríki íslams tók bæinn fyrir tveimur árum. Um sama leyti og samtökin tóku Mosúl.

Óttast er að bardagar um Mosúl eigi eftir að leiða til mikilla hörmunga fyrir íbúa borgarinnar. Fjölmargir íbúar hennar hafa þegar flúið átökin um hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert