Grínið í fyrirrúmi hjá Trump og Clinton

Hillary Clinton og Donald Trump takast í hendur í nótt.
Hillary Clinton og Donald Trump takast í hendur í nótt. AFP

Forsetaframbjóðendurnir Donald Trump og Hillary Clinton héldu ræður á góðgerðarkvöldverði sem var haldinn í New York í nótt. Nokkuð var hlegið að bröndurum þeirra en Trump hitti þó ekki alltaf í mark því baulað var á hann vegna nokkurra þeirra.

Um var að ræða hinn árlega minningarkvöldverð stofnunar Alfred E. Smith. Honum er ætlað að afla fé til málefna kaþólsku kirkjunnar og venjulega er léttleikinn þar í fyrirrúmi.

„Michelle Obama heldur ræðu og allir elska hana. Ræðan er frábær,“ sagði Trump. „Eiginkonan mín, Melania, heldur nákvæmlega sömu ræðu og fólk gerir lítið úr henni!“

Þar vísaði hann í ræðu sem Melania hélt sem þótti mjög lík ræðu sem Michelle Obama hélt árið 2008.

„Henni var úthúðað vegna ræðunnar,“ sagði Trump en eiginkonan hans var í áhorfendasalnum. „Ó, ég er í slæmum málum þegar ég kem heim í kvöld.“

Donald Trump og eiginkonan hans Melania Trump.
Donald Trump og eiginkonan hans Melania Trump. AFP

Trump sagði Demókrataflokkinn einnig spilltan vegna Clinton og máls tengdu tölvupósti hennar.

„Hillary telur mikilvægt að svíkja fólk með því að hafa eina stefnu opinberlega en allt aðra í einkalífinu. Hérna er hún stödd opinberlega og lætur sem hún hati ekki kaþólskt fólk.“ Töluvert var baulað á Trump vegna þessara ummæla. 

Clinton gerði grín að sjálfri sér. „Ég tók mér hlé frá hvíldardagskrá minni til að geta verið hérna í kvöld,“ sagði hún en Trump hefur talað um að hana skorti úthald.

Frambjóðendurnir við hliðina á kardinálanum Timothy Dolan.
Frambjóðendurnir við hliðina á kardinálanum Timothy Dolan. AFP

„Þið eruð heppin. Venjulega rukka ég helling fyrir ræður eins og þessa,“ bætti hún við og átti við þær háu upphæðir sem hún fékk fyrir ræðuhöld eftir að hún hætti sem utanríkisráðherra.

Síðan sneri hún sér að Trump. „Donald, ef þú á einhverjum tímapunkti ert óánægður með það sem ég er að segja, skaltu endilega standa upp og hrópa: „Rangt!“ á meðan ég er að tala.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert