„Heimurinn hatar Obama“

Þeir sem hafa fylgst með Trump kannast vel við það …
Þeir sem hafa fylgst með Trump kannast vel við það hvernig frambjóðandinn notar hendurnar til að ítreka það sem hann er að segja. Í gær var það „Heimurinn hatar Obama.“ AFP

Donald Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins, hefur haldið því fram að Barack Obama og Bandaríkin séu hötuð um allan heim, og hafi orðið til þess að ýta ríkjum á borð við Filippseyjar frá sér og í faðm andstæðingsins.

„Heimurinn hatar forsetann okkar,“ sagði Trump í gær á kosningafundi í Johnstown í Pennsylvaníu. „Heimurinn hatar okkur. Þið sáuð hvað gerðist með Filippseyjar eftir mörg ár; þau horfa nú til Rússlands og Kína, af því að þeim líður ekki vel með veiklunduð Bandaríkin.“

Í september sl. afboðaði Obama fund með Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, en síðarnefndi hafði m.a. kallað Obama „hóruson.“ Á fimmtudag lýsti Duterte því yfir að „Bandaríkin hefðu tapað“ og sagði að nú væru það Kína, Filippseyjar og Rússland gegn heiminum.

Forsetinn dró þó í land í gær og sagðist ekki myndu slíta tengslin við Bandaríkin. Filippseyjum væri best borgið í bandalagi með Bandaríkjunum.

Trump þarf að hafa betur en Hillary Clinton í Pennsylvaníu til að eiga möguleika á sigri í forsetakosningunum en hún hefur sex prósentustiga forskot í ríkinu eins og er. Á kosningafundi þar í gær hét Trump því að fjölga störfum fyrir námuverkamenn, en svo óheppilega vildi til að fundurinn var haldinn fjarri námasvæðum Pennsylvaníu.

Forsetakandídatinn litríki mun halda ræðu í Gettysburg í dag, þar sem hann mun flytja „lokaorð“ sín til kjósenda. Að sögn innanbúðamanna verður erindið í anda „Contract with America“-ræðu Newt Gingrich frá 1994.

Ítarlegar má lesa um málið hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert