Hjálpin barst aldrei til Aleppo

Reykur stígur til himins frá byggingu í Aleppo.
Reykur stígur til himins frá byggingu í Aleppo. AFP

Bardagar voru háðir á jörðu niðri og árásir gerðar úr lofti á sýrlensku borgina Aleppo í gær og nótt. Friðurinn er úti eftir þriggja sólarhringa vopnahlé sem Rússar lýstu yfir eftir að hafa haldið uppi stöðugum árásum á austurhluta borgarinnar vikum saman. Sameinuðu þjóðirnar komust aldrei í það verkefni að flytja særða íbúa af svæðinu eins og vonast hafði verið eftir. Þá hafði stofnunin einnig vonast til þess að geta komið neyðarbirgðum til íbúanna. Af því varð ekki heldur.

Umsátursástand hefur ríkt í austurhluta Aleppo í meira en þrjá mánuði. Á þeim tíma hafa loftárásir verið daglegt brauð og þúsundir íbúa særst og hundruð fallið.

Austurhluti borgarinnar er á valdi uppreisnarmanna en vesturhluti hennar er enn undir yfirráðum Sýrlandsstjórnar. 

Uppreisnarmenn svöruðu fyrir sig í gær með eldflaugaárásum á Hamdaniyeh-hverfið sem er á valdi stjórnarhersins.

Í morgunsárið var hljótt í Aleppo. Ekki er vitað hvort vopnahlé hefur aftur tekið gildi en bæði Rússar og Sýrlandsstjórn hafa heitið því að veita mannúðarsamtökum aðgang að þeim borgarhlutum sem verst hafa orðið úti svo að koma megi særðum borgurum til aðstoðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert