Í haldi sjóræningja í tæp fimm ár

Sómalskir sjóræningjar herjuðu á sjófarendur um Indlandshaf fyrir nokkrum árum. …
Sómalskir sjóræningjar herjuðu á sjófarendur um Indlandshaf fyrir nokkrum árum. Hér má sjá franska herþyrlu elta bát þeirra árið 2009. AFP

Sómalskir sjóræningjar hafa leyst 26 Asíubúa úr haldi. Tæplega fimm ár eru síðan fólkið var tekið í gíslingu. Þá fóru sjóræningjarnir um borð í fiskiskip þeirra. Áhöfn skipsins Naham 3 sigldi undir ómönskum fána. Skipverjarnir voru teknir höndum í mars árið 2012 suður af Seychelles-eyjum.

„Við erum mjög ánægð að geta tilkynnt um frelsun áhafnar Naham 3,“ segir John Steed, sem fór fyrir þeim hópi sem samdi um lausn gíslanna. 

Steed var áður yfirmaður í breska hernum en hefur gert það að ævistarfi sínu að frelsa fólk úr haldi sjóræningja. Sómalskir sjóræningjar hafa haft hægt um sig síðustu ár en á þeim árum sem gíslarnir voru teknir voru þeir mjög iðnir.

Gíslunum var haldið í borginni Galkayo þar sem borgarastyrjöld ríkti. Það tafði verulega fyrir lausn þeirra. Það hefur líka orðið til þess að fólkið er enn ekki komið í faðm ættingja sinna. „Það er enn hættulegt ástand í Galkayo og það er búist við frekari átökum,“ sagði Steed í gærkvöldi. Hann segir að til standi að sækja sjómennina í dag og koma þeim til Naíróbí í Kenía. Þar munu þeir fá læknisaðstoð, þurfi þeir þess með.

Sjómennirnir eru frá Kambódíu, Kína, Indónesíu, Filippseyjum, Taívan og Víetnam. Þeir verða vonandi komnir til ástvina sinna innan fárra daga. 

Steed segir að þeim hafi verið haldið við mjög erfiðar aðstæður í meira en fjögur og hálft ár.  Þeir eru því vannærðir og einn þeirra er særður eftir að hafa orðið fyrir skoti. Þá fékk annar heilablóðfall og einn þjáist af sykursýki.

Sjóræningjarnir tóku upphaflega 29 til fanga. Einn lést meðan á mannráninu stóð og tveir hafa látist í haldi ræningjanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert