Sagðir hafa drepið 284 í Mosúl

Vígamenn Ríkis íslams söfnuðu saman og drápu 284 karlmenn og drengi er íraski herinn nálgaðist borgina Mosúl fyrir helgi. Þetta hefur fréttastofa CNN eftir heimildarmönnum sínum.

Fólkið var drepið á fimmtudag og föstudag og var það notað sem mannlegir skildir í orrustunni um borgina. 

Íraksher hóf fyrir nokkrum dögum stórsókn að Mosúl sem hefur undanfarin misseri verið undir yfirráðum Ríkis íslams. 

Samkvæmt frétt CNN hentu vígamennirnir líkum fólksins í fjöldagrafir norður af borginni. Börn voru meðal þeirra sem drepnir voru. Allur hópurinn var skotinn, samkvæmt heimildum CNN. 

Íraskar fjölskyldur á flótta frá borginni Mosúl en kveikt var …
Íraskar fjölskyldur á flótta frá borginni Mosúl en kveikt var í brennisteinsverksmiðju í nágrenni hennar í gær. Eiturgufur stigu til himins og var þúsundum gasgríma dreift. AFP

Í gær voru harðir bardagar milli Ríkis íslams og íraska hersins í nágrannaborginni Kirkuk. Í frétt Guardian segir að vígamenn Ríkis íslams hafi kveikt í brennisteinsverksmiðju nærri Mosúl. Eiturefnin sem stigu upp frá íkveikjustaðnum urðu til þess að Bandaríkjamenn, sem berjast við hlið Íraka á svæðinu, dreifðu 24 þúsund gasgrímum til hermanna á svæðinu.

Íkveikjan þykir til marks um þá hættu að Ríki íslams muni nota efnavopn í orrustunni um Mosúl.

Tugir þúsunda hermanna bandamanna hafa safnast saman við Mosúl. Talið er að vígamenn Ríkis íslams á svæðinu séu um 6.000 talsins. Þrátt fyrir að liðstyrkur bandamanna sé meiri sýndi íkveikjan við Kirkuk í gær að Ríki íslams er til alls líklegt í bardögum næstu daga. 

Hermenn íraska hersins setja á sig gasgrímur við borgina Mosúl.
Hermenn íraska hersins setja á sig gasgrímur við borgina Mosúl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert