„Verðum að þora að gera kröfur“

Margrét Danadrottning segir skoðanir sínar á dönsku samfélagi og hvernig …
Margrét Danadrottning segir skoðanir sínar á dönsku samfélagi og hvernig það er að vera Dani í nýrri bók. www.kongehuset.dk

„Við Danir þurfum að bæta okkur í því að segja frá gildum okkar, gildum sem landið byggir á. Og við verðum að þora að gera kröfur til fólks sem vill verða hluti af dönsku samfélagi.

Þetta segir Margrét Danadrottning í nýrri bók, Dýpstu ræturnar, sem blaðamaður Berlinske Tidende skrifaði. Í bókinni segir Margrét m.a. frá sýn sinni á innflytjendamál í landinu. Margrét segist hafa uppgötvað að Danir hafa vanmetið þá áskorun sem fellst í því að ná árangri í aðlögun nýrra þegna að dönsku samfélagi.

„Við héldum kannski að þetta myndi gerast sjálfkrafa. Að ef þú gengir um götur Kaupmannahafnar og drykkir vatnið í borginni, tækir strætisvagninn, þá yrðir þú Dani á stuttum tíma,“ er haft eftir Margréti í bókinni. „Þetta finnst okkur svo sjálfsagt og því töldum við að það sama ætti við þá sem setjast hér að. Svo reyndist ekki vera. Við höfum lært af reynslunni. Það er ekki náttúrulögmál að maður verði danskur þó maður búi í Danmörku.“

Margrét segist á þeirri skoðun að vissulega eigi fólk að halda í sínar rætur. En það verði að skipta um hluta af „moldinni í pottinum,“ eins og hún orðar það í bókinni.

Hún segir að Danir verði að gera öllum ljóst hver gildi og reglur dansks samfélags séu. Stundum verði að setja fólki stólinn fyrir dyrnar og segja: „Heyrðu! Þetta sem þú ert að gera, það er gengur ekki.“

Danadrottning bendir á að skólakerfið og menntun séu meðal mikilvægustu leiða sem nýta beri til bættrar aðlögunar fólks að dönsku samfélagi. Hún játar þó að hún hafi ekki hina fullkomnu uppskrift að góðri aðlögun. „En við verðum að komast að henni,“ segir hún. „Ég held að við ættum að gleðjast yfir því að við höfum uppgötvað að þetta er erfitt og vandmeðfarið. Þá getum við tekist á við vandamálin.“

Sjá ítarlegri grein um bókina hér og hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert