„Fordæmalaus“ alda loftárása

Írakskur drengur á flótta frá Mosúl.
Írakskur drengur á flótta frá Mosúl. AFP

Bandamenn undir forystu Bandaríkjanna, sem berjast við hlið íraskra hersveita gegn vígamönnum Ríkis íslams, hafa hafið „fordæmalausa“ öldu loftárása í orrustunni um Mosúl. Þessu sögðu bandarískir embættismenn frá í dag.

Mannúðarsamtök hafa mikar áhyggjur af því að óbreyttir borgarar verði innlyksa í Mosúl á meðan árásirnar standa yfir. Þá hefur þegar komið í ljós að vígamenn Ríkis íslams nota borgarana sem mannlega skildi og hafa stráfellt þá þegar svo ber undir.

Vika er síðan íraski herinn hóf miklar hernaðaraðgerðir til að ná borginni aftur á vald sitt. Hún hefur verið undir yfirráðum Ríkis íslams í um tvö ár. Þeir sem fara fyrir hersveitum Bandaríkjamanna í aðgerðunum segja að loftárásirnar í dag séu þær mestu hingað til. 

Þeir segja að á sjö daga tímabili, 17.-23. október, hafi verið gerðar 32 loftárásir þar sem 1.776 sprengjum var beitt. Þetta staðfesti talsmaður bandarísku hersveitanna, hershöfðinginn John Dorrian, í samtali við AFP.

Börn á flótta frá Mosúl. Orrustan um borgina er hafin.
Börn á flótta frá Mosúl. Orrustan um borgina er hafin. AFP

Hann segir að í hverri árás sé ráðist gegn mörgum skotmörkum, jafnvel tímunum saman. 

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Ashton Carter, var í Írak um helgina til að fylgjast með aðgerðunum. Þær eru þær umfangsmestu í landinu frá því að Bandaríkjamenn drógu herlið sitt þaðan árið 2011.

Í hópi bandamanna eru auk Bandaríkjanna 60 þjóðir, m.a. Frakkar og Bretar. Þær hafa meðal annars liðsinnt íraska hernum með því að þjálfa hermenn þeirra og veita ráðgjöf.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að frá því í ágúst árið 2014 hafi bandamenn gert yfir 15.800 loftárásir í baráttunni gegn Ríki íslams, aðallega í Írak en einnig í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert